Fótbolti

Norður­löndin töpuðu og stelpurnar okkar setja stefnuna á Sviss

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenska landsliðið var með á síðasta EM, í Englandi í fyrra, og tapaði ekki leik en varð þó að sætta sig við að falla úr leik í riðlakeppninni.
Íslenska landsliðið var með á síðasta EM, í Englandi í fyrra, og tapaði ekki leik en varð þó að sætta sig við að falla úr leik í riðlakeppninni. VÍSIR/VILHELM

UEFA, knattspyrnusamband Evrópu, ákvað að velja Sviss sem leikstað fyrir næsta Evrópumót kvenna en það fer fram sumarið 2025.

Norðurlöndin sóttust eftir því að fá að halda mótið og hefði þeim orðið að ósk sinni hefði mótið farið fram í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, með stuðningi Íslands og Færeyja.

Sú ákvörðun var hins vegar tekin í dag að halda mótið í Sviss. Pólland og Frakkland höfðu einnig sóst eftir því að fá að halda mótið, sem og Úkraína áður en innrás Rússa í landið eyðilagði þær áætlanir.

Evrópumótið fór síðast fram í Englandi í fyrra, ári síðar en vanalega vegna kórónuveirufaraldursins, og Ísland var þar meðal þátttakenda í fjórða skiptið í röð.

Mæta gestgjöfum EM næsta þriðjudag

Undankeppni EM hefst vorið 2024 og eru fimmtán sæti í boði á mótinu nú þegar ljóst er að Sviss hefur tryggt sér sæti þar sem gestgjafi.

Íslenska liðið kom saman í gær vegna tveggja vináttulandsleikja en liðið mætir Nýja-Sjálandi í Antalya í Tyrklandi á föstudaginn. Stelpurnar okkar halda svo á staðinn þar sem EM fer fram eftir tvö ár því Ísland mætir Sviss í Zürich eftir viku.

Leikirnir á EM í Sviss munu fara fram í átta borgum en þær eru Basel, Bern, Genf, Lucerne, Lausanne, Zürich, Thun, St. Gallen og Sion. Með því að smella hér er hægt að skoða leikvangana sem til stendur að spila á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×