Fótbolti

Luka­ku hafi verið að þagga niður í kyn­þátta­níð þegar rauða spjaldið fór á loft

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Romelu Lukaku skoraði jöfnunarmark Inter í gær, en fékk í kjölfarið að líta rautt spjald.
Romelu Lukaku skoraði jöfnunarmark Inter í gær, en fékk í kjölfarið að líta rautt spjald. Sportinfoto/DeFodi Images via Getty Images

Belgíski framherjinn Romelu Lukaku reyndist hetja Inter er liðið gerði 1-1 jafntefli gegn Juventus í ítölsku bikarkeppninni í fótbolta í gærkvöldi. Lukaku jafnaði metin með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma, en fékk svo að líta sitt annað gula spjald í leiknum fyrir að fagna fyrir framan stuðningsmenn Juvenstus.

Lukaku jafnaði metin á fimmtu mínútu uppbótartíma með marki úr vítaspyrnu sem reyndist vera síðasta spyrna leiksins. Í kjölfarið brutust út mikil læti þar sem Lukaku fékk að líta rautt spjald fyrir að fagna í andlit stuðningsmanna Juventus, en þeir Juan Cuadrado, leikmaður Juventus, og Samir Handanovic, markvörður Inter, fengu einnig að líta rauða spjaldið í látunum.

Fagnaðarlæti framherjans stöfuðu þó ekki aðeins af gleði. Lukaku og umboðsmaður hans segja að hann hafi orðið fyrir kynþáttaníð af hálfu stuðningsmanna Juventus og að framherjinn hafi ætlað að þagga niður í stuðningsmönnunum.

„Kynþáttaníðin sem Romelu Lukaku varð fyrir í kvöld af hálfu stuðningsmanna Juventus í Tórínó var fyrirlitleg og óafsakanleg,“ sagði Michael Yormac, forseti umboðsskrifstofunnar sem sér um mál Lukakus.

„Romelu skoraði úr vítaspyrnu seint í leiknum. Fyrir, á meðan og eftir vítaspyrnuna varð hann fyrir fjandsamlegri og ógeðslegri kynþáttaníð. Romelu svaraði því með því að fagna eins og hann gerir alltaf, en dómarinn brást við því með því að sýna honum gult spjald.“

„Romelu á skilið afsökunarbeiðni frá Juventus og ég býst við því að ítalska deildin fordæmi hegðun þessa hóps stuðningsmanna Juventus tafarlaust.“

„Ítölsk yfirvöld verða að nýta þetta tækifæri til að tækla kynþáttafordóma, frekar en að refsa fórnarlambi þeirra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×