Erlent

Slapp úr fangelsi með því að sviðsetja dauða sinn

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Thabo Bester var handtekinn á föstudag, ári eftir að hann var úrskurðaður látinn.
Thabo Bester var handtekinn á föstudag, ári eftir að hann var úrskurðaður látinn. gallo images

Suður-afrískur karlmaður, sem sakfelldur var fyrir nauðgun og morð árið 2012, var handtekinn á föstudag, ári eftir að hann var úrskurðaður látinn. Hann er talinn hafa sloppið úr fangelsi með því að sviðsetja dauða sinn. 

Maðurinn heitir Thabo Bester og var eins og áður segir sakfelldur fyrir að hafa nauðgað og myrt fyrrverandi kærustu sína árið 2012. 

Hann var úrskurðaður látinn í maí 2022, eftir að hann var talinn hafa kveikt í sér í fangaklefa sínum. Hann var hins vegar handtekinn í Tansaníu á föstudag ásamt kærustu sinni og vini sem talin eru hafa ætlað að aðstoða Bester við að koma sér til nágrannalandsins Kenía. 

Upp komst um málið eftir að fjölmiðlar hófu að rannsaka dauða Bester nánar. Í mars á þessu ári hóf lögregla svo rannsókn á dauða hans á ný og komust að því að hinn látni væri ekki Bester heldur annar maður sem hafði látist af völdum barsmíða.

Starfsmenn fangelsisins Mangaung í suður-afrísku borginni Bloemfontein, þar sem Bester var vistaður, eru grunaðir um að hafa aðstoðað hann við að flýja úr fangelsinu. Í frétt BBC kemur fram að breska öryggisfyrirtækið G4S sjái um rekstur fangelsisins og að nokkrum starfsmönnum þess hafi verið sagt upp vegna málsins. 

Í frétt BBC kemur einnig fram að tilkynnt hafi verið um Bester á ferli síðasta tæpa árið, meðal annars í matvörubúð í úthverfi Jóhannesarborgar. Þá er hann talinn hafa leigt stórhýsi í sömu borg síðasta árið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×