Er um að ræða tólftu seríu af þessum vinsælu þáttum sem leikstýrt er af Ryan Murphy. Auk American Horror Story er Murphy þekktur fyrir þætti á borð við Glee, Pose, Scream Queens og hina mjög svo umdeildu seríu Dahmer - Monster: The Jeffrey Dahmer Story.
Undirtitill þessarar seríu af American Horror Story er Delicate og að sögn The Hollywood Reporter er hún að hluta til byggð á væntanlegri skáldsögu eftir Danielle Valentine, Delicate Condition.
Reynsluboltinn Emma Roberts verður með Kim í þáttunum en hún hefur unnið mikið með Murphy og leikið stór hlutverk í fyrri seríum.

Kim er ekki fyrsta súperstjarnan sem landar hlutverki í þáttunum og má þar nefna að Lady Gaga lék í fimmtu seríunni, American Horror Story: Hotel. American Horror Story er líklega vinsælasta verkefni sem Ryan Murphy hefur unnið að en þættirnir hafa fengið yfir 100 Emmy tilnefningar og unnið 13 styttur hingað til.
Murphy virðist mjög spenntur að vinna með Kim og á hún að hafa heillað hann með uppistandi sínu á Saturday Night Live árið 2021.
Kim Kardashian West s Monologue! pic.twitter.com/t60b6ZC6cl
— Saturday Night Live - SNL (@nbcsnl) October 10, 2021
„Kim er meðal stærstu og skærustu sjónvarpsstjörnum heimsins og við erum í skýjunum að fá að bjóða hana velkomna í AHS fjölskylduna. Ég og Emma erum spennt að vinna með þessu kraftmikla menningarafli sem Kim er.
Halley Feiffer, handritshöfundurinn, er búin að skrifa skemmtilegt, smart og mjög ógnvekjandi hlutverk sérstaklega fyrir Kim og þessi sería verður metnaðarfull og ólík öllu sem við höfum áður gert,“ kemur fram í tilkynningu frá Murphy.
Ætlað er að tökur hefjist nú í apríl en í sumar kemur nánar í ljós hvenær þættirnir verða sýndir.