Fótbolti

Sjáðu mörk Real gegn Chelsea og rauða spjaldið

Sindri Sverrisson skrifar
Vinicius Junior og Karim Benzema fagna marki þess síðarnefnda gegn Chelsea í gær.
Vinicius Junior og Karim Benzema fagna marki þess síðarnefnda gegn Chelsea í gær. Getty/Angel Martinez

Evrópumeistarar Real Madrid eru í góðum málum í einvígi sínu við Chelsea í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta, eftir 2-0 heimasigur í gær. Mikil spenna er  í einvígi AC Milan og Napoli eftir 1-0 heimasigur Milan.

Það var að sjálfsögðu Karim Benzema sem kom Real yfir gegn Chelsea í gær, eftir tuttugu mínútna leik, en hann náði frákastinu eftir að skot Vinicius Junior var varið. 

Madridingar voru sterkari aðilinn og Chelsea tókst ekki að skora frekar en í síðustu þremur leikjum sínum á undan. 

Chelsea missti svo Ben Chilwell af velli með rautt spjald þegar hann braut af sér við að reyna að bæta upp fyrir mistök Marc Cucurella á 59. mínútu, og manni fleiri bættu heimamenn við marki þegar varamaðurinn Marco Asensio skoraði með góðu skoti á 74. mínútu.

Klippa: Hápunktar úr leik Real Madrid og Chelsea

Í hinum leik gærkvöldsins tókst AC Milan að landa 1-0 sigri gegn Napoli með marki frá Ismael Bennacer á 40. mínútu, eftir góða skyndisókn þar sem Brahim Díaz var í aðalhlutverki.

Markverðir liðanna höfðu í nógu að snúast og Simon Kjær átti hörkuskalla í þverslána á marki Napoli undir lok fyrri hálfleiks, rétt eins og Eljif Elmas átti skalla í sömu þverslá snemma í seinni hálfleik, en fleiri mörk voru ekki skoruð.

Klippa: Hápunktar úr leik AC Milan og Napoli

Seinni leikirnir í einvígjunum fara fram næstkomandi þriðjudagskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×