Undanfarna daga hafa fjármál íslenskra sveitarfélaga verið nokkuð áberandi í fjölmiðlum. Athyglin hefur ekki komið til af góðu þar sem fréttirnar snúa flestar að erfiðleikum við fjármögnun, þungum rekstri og íþyngjandi skuldabyrði. Mörg sveitarfélög fjármagna sig með útgáfu á skuldabréfum til lánardrottna sinna. Algengt er að skuldabréfin séu skráð í kauphöll þar sem þau ganga kaupum og sölum á eftirmarkaði.
Fréttir síðustu daga hafa vakið upp spurningar um hvort og þá hvaða sérstöku reglur gilda um útgefendur skráðra skuldabréfa, þá sérstaklega að því er varðar upplýsingagjöf þeirra.
Sem kunnugt er gilda nokkuð ítarlegar reglur um félög sem hafa fengið hlutabréf sín skráð í kauphöll. Er slíkum félögum gert að gera opinberar ítarlegar fjárhagsupplýsingar og birta allar verðmótandi upplýsingar í tengslum við reksturinn. Að meginstefnu til gilda sömu reglur um útgefendur skuldabréfa sem skráð hafa verið í kauphöll. Þar á meðal sveitarfélög. Þannig ber útgefendum skráðra skuldabréfa – með fáeinum undantekningum – að birta árs- og árshlutareikninga sína innan tiltekinna tímamarka, upplýsa um allar breytingar á réttindum handhafa skuldabréfa sem og að tilkynna ef til stendur að halda fund með skuldabréfaeigendum.
Þá ber útgefendum skráðra skuldabréfa til viðbótar – líkt og á við um útgefendur hlutabréfa – að birta allar innherjaupplýsingar sem varða viðkomandi útgefanda opinberlega. Með hugtakinu innherjaupplýsingum í þessum skilningi er átt við nægjanlega tilgreindar upplýsingar sem ekki hafa verið gerðar opinberar og varða, beint eða óbeint, viðkomandi útgefanda eða skuldabréfin og væru líklegar, yrðu þær gerðar opinberar, til að hafa marktæk áhrif á verð skuldabréfanna. Í sjálfu sér eru lítil takmörk sett um hvers konar upplýsingar getur verið að ræða svo lengi sem skilyrði laga eru uppfyllt. Af hálfu ESMA, evrópsku verðbréfaeftirlitsstofnunarinnar, hafa til að mynda endurskipulagning, ágreiningur og ákvarðanir opinberra aðila verið nefnd sem dæmi um tilvik sem að fyrra bragði geta talist innherjaupplýsingar.
Þá skiptir máli með hvaða hætti framangreindar upplýsingar eru birtar. Útgefendur verða þannig að birta innherjaupplýsingar eins fljótt og auðið er og á jafnræðisgrundvelli. Nauðsynlegt er því að fjárfestar hafi aðgang að öllum sömu upplýsingum um útgefendur fjármálagerninga á sama stað og á sama tíma enda reglunum ætlað að auka gagnsæi fjármagnsmarkaðarins og vernda fjárfesta. Ekki dugar því að koma upplýsingum á framfæri í fjölmiðlum heldur þarf aðbirta þær í sérstöku fréttakerfi sem uppfyllir þar til gerð skilyrði til að teljast opinber birting í skilningi laga.
Ekki er til dæmis sjálfgefið að upplýsingar, sem að fyrra bragði eru líklegar til að hafa áhrif á verð skráðra hlutabréfa, hafi endilega slík áhrif á verð skráðra skuldabréfa.
Af framangreindu leiðir að um útgefendur skráðra skuldabréfa gilda nokkuð ítarlegar reglur, meðal annars að því er lýtur að skyldu þeirra til að birta fjárhagsupplýsingar og aðrar innherjaupplýsingar sem snerta þá. Í því skyni er þó nauðsynlegt að hafa í huga að matið á því hvort tilteknar upplýsingar teljist innherjaupplýsingar er atvikabundið og verður að skoða í hverju tilviki fyrir sig út frá þeim aðstæðum sem uppi eru. Ekki er til dæmis sjálfgefið að upplýsingar, sem að fyrra bragði eru líklegar til að hafa áhrif á verð skráðra hlutabréfa, hafi endilega slík áhrif á verð skráðra skuldabréfa. Kemur þar til hve eðlisólíkir gerningar hlutabréf og skuldabréf eru, meðal annars að því er varðar hvar í kröfuröð þeir falla, hvað ræður verði þeirra og svo framvegis.
Almennt verður því að telja að meira þurfi til að koma svo tilteknar upplýsingar teljist innherjaupplýsingar þegar um er að ræða upplýsingar um skuldabréf eða útgefendur þeirra fremur en hlutabréf.
Höfundur er eigandi á LEX lögmannsstofu.