Innlent

Maðurinn sem lést í Brasilíu ekki talinn höfuð­paur

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Sigurður Bragason hafði búið í Brasilíu um nokkurt skeið. Hann lést ytra á meðan á rannsókn lögreglu stóð.
Sigurður Bragason hafði búið í Brasilíu um nokkurt skeið. Hann lést ytra á meðan á rannsókn lögreglu stóð.

Íslenskur maður sem til stóð að handtaka í tengslum við umfangsmiklar aðgerðir brasilísku lögreglunnar lést úr krabbameini fyrr á þessu ári á meðan rannsókn málsins stóð yfir. Því er ljóst að að minnsta kosti tveir Íslendingar tengjast málinu.

Umfangsmiklar aðgerðir brasilísku lögreglunnar á miðvikudagsmorgun voru liður í því að uppræta glæpasamtök sem hafa sérhæft sig í peningaþvætti og fíkniefnaviðskiptum. Líkt og áður hefur komið var var einn þeirra tuttu og sex sem voru handteknir Sverrir Þór Gunnarsson, betur þekktur sem Sveddi tönn.

Lést í febrúar úr krabbameini

Nú hefur komið í ljós að Sverrir var ekki eini Íslendingurinn sem stóð til að handtaka heldur hafði einnig verið gefin út handtökuskipun á hendur öðrum Íslendingi sem var búsettur í Rio de Janeiro. Sá maður lést hinsvegar í febrúar eftir skammvinn veikindi. Hann hét Sigurður Bragason, var 48 ára gamall og hafði búið í Brasilíu í fjögur ár þegar hann lést.

Í viðtali við Vísi í febrúar greindi systir Sigurðar frá því að í ágúst í fyrra hefði hann greinst með heilaæxli. Þegar viðtalið birtist lá Sigurður banaleguna á sjúkrahúsi í Rio de Janeiro. Hann lést daginn eftir að viðtalið birtist.

Efnt var til söfnunar til styrktar fjölskyldunni þar sem veikindi Sigurðar auk vatnstjóns á húsi þeirra hafði að sögn systur hans sett fjölskylduna í gífurlega erfiða stöðu fjárhagslega.

Ekki er ljóst hvert hlutverk Sigurðar var í málinu en samkvæmt heimildum fréttastofu var hann ekki höfuðpaur líkt og Sverrir Þór er grunaður um að vera. Hann hefur þó áður komið við sögu í slíkum málum, verið vitni og var sýknaður í stóru fíkniefnamáli fyrir tuttugu árum.

Þeir sem handteknir hafa verið í aðgerðinni, sem alríkislögreglan kallar Match Point, eru grunaðir um víðtækt fíkniefnasmygl til og frá Brasilíu sem og peningaþvætti.


Tengdar fréttir

Ætluðu að handtaka annan Íslending en hann lést í miðri rannsókn

Handtökuskipun var gefin út á hendur tveimur Íslendingum í Brasilíu í tengslum við umfangsmiklar aðgerðir brasilísku lögreglunnar í gær. Annar þeirra, Sverrir Þór Gunnarsson, var handtekinn en hinn maðurinn lést á meðan rannsókn málsins stóð yfir.

Fleiri hand­tökur í Brasilíu í máli Svedda tannar

Maður var handtekinn síðdegis í gær í borginni Rio de Janeiro, grunaður um aðild að glæpahringnum sem Sverrir Þór Gunnarsson er sakaður um að hafa stýrt. Maðurinn var handtekinn í verslunarmiðstöðinni Barra da Tijuca, í vesturhluta borgarinnar. Brasilískir miðlar greina frá þessu.

Tengsl við Afríku og tvær rót­grónar fangelsis­klíkur

Fíkniefnahringirnir sem Sverrir Þór Gunnarsson og ítalskur karlmaður eru sagðir hafa stýrt í Brasilíu smygluðu ekki aðeins efnum til og frá Evrópu heldur Afríku og annarra landa Suður Ameríku einnig. Þá hafa hringirnir tengsl við tvö alræmd og rótgróin glæpasamtök í fangelsum.

Ekki hægt að úti­loka að fleiri Ís­lendingar verði hand­teknir

Yfirlögregluþjónn á alþjóðasviði ríkislögreglustjóra segir ekki vera hægt að útiloka að fleiri Íslendingar verði handteknir í tengslum við rannsókn á streymi fíkniefna frá Brasilíu til Evrópu. Mun það skýrast síðar hvort farið verði fram á framsal á Íslendingi sem var handtekinn í Brasilíu í morgun. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×