Innlent

Í­búar á Austur­landi dug­­legri við að ganga í hjú­­skap

Bjarki Sigurðsson skrifar
Seyðisfjarðarkirkja er ein fallegasta kirkja landsins.
Seyðisfjarðarkirkja er ein fallegasta kirkja landsins. Vísir/Vilhelm

Alls gengu 4.416 einstaklingar í hjúskap hér á landi árið 2022. 39,2 prósent þeirra gerðu það hjá Þjóðkirkjunni. Íbúar á Austurlandi voru líklegri en aðrir til að ganga í hjúskap á árinu. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu voru duglegri að ganga frá lögskilnaði en aðrir.

Um er að ræða smávegis fjölgun frá 2021 en þá gengu 4.192 manns í hjúskap. Samkvæmt tölum frá Þjóðskrá var meðalaldur einstaklinga sem gengu í hjúskap árið 2022 38,2 ár. 39,2 prósent gengu í hjúskap hjá Þjóðkirkjunni, 34,9 prósent hjá sýslumönnum og 25,9 prósent annars staðar. 

Þegar borin eru saman hjúskaparvottorð við hverja þúsund íbúa kemur í ljós að íbúar á Austurlandi voru duglegri en aðrir að ganga í hjúskap. 14,25 af hverjum þúsund gerðu það á síðasta ári. Íbúar á Norðurlandi vestra voru með lægstu töluna 8,33 íbúar á hverja þúsund. 

Alls gengu 1.227 einstaklingar frá lögskilnaði á síðasta ári. 1.145 gerðu það hjá sýslumanni, 54 erlendis og 28 fyrir dómi. Meðalaldur þeirra var 46,2 ár.

Flestir lögskilnaðir á hverja þúsund íbúa voru á höfuðborgarsvæðinu. Þar voru 3,46 lögskilnaðir voru á hverja þúsund íbúa, þar á eftir komu Suðurnes með 3,26 lögskilnaði. Vestfirðingar virðast ólíklegri en aðrir til að ganga frá lögskilnaði en þar voru skráður 0,81 lögskilnaður á hverja þúsund íbúa. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×