Viðskipti innlent

Bónus­grísinn reiður korta­fyrir­tækjum

Árni Sæberg skrifar
Bónusgrísinn er ekki sáttur með kortafyrirtæki landsins.
Bónusgrísinn er ekki sáttur með kortafyrirtæki landsins. Vísir/Grafík

„Kortafyrirtækin klúðruðu uppfærslu á sínum kerfum og því hafa margir lent í röngum færslum,“ segir í færslu á Facebooksíðu verslunarkeðjunnar Bónus. Með færslunni fylgir mynd af Bónusgrísnum fræga, sem er heldur reiður á svip.

Margir korthafar greiðslukorta Mastercard ráku upp stór augu í morgun þegar kortafærslur, sem voru miklum mun hærri eða lægri en þær áttu að vera, birtust á yfirlitum þeirra. Dæmi eru um að fólk hafi að eytt þremur milljónum króna í ÁTVR eða fengið heila máltíð á aðeins 57 krónur.

„Vegna breytinga sem gerðar voru hjá alþjóðlegu kortasamtökunum um helgina þar sem aukastafir íslensku krónunnar voru fjarlægðir birtist hluti þeirra færslna sem gerðar voru hjá íslenskum söluaðilum með Mastercard korti rangar núna í morgun. Leiðrétting hefur þegar verið send til Mastercard og staða hjá korthöfum verður leiðrétt sem fyrst“ segir í tilkynningu Rapyd (áður Valitor) um málið í dag.

Þá eru það ekki aðeins neytendur sem hafa fundið fyrir óþægindum í dag enda hafa kaupmenn ekki farið varhluta af þeim.

Þannig segir í tilkynningu á Facebooksíðu Bónus að mikið álag hafi verið á starfsfólki verslana keðjunnar „útaf þessu klúðri.“

Bónus biðst velvirðingar og bendir viðskiptavinum sínum á að hafa samband við sinn viðskiptabanka eða hringja í neyðarnúmer á greiðslukortum, vakni einhverjar spurningar.

„Það er ástæða fyrir reiða grísnum,“ segir sá sem stýrir Facebooksíðu Bónus í athugasemd við færsluna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×