Körfubolti

„Lærðum það gegn Haukum að við þurfum að stíga út og taka sóknar­frá­köst“

Andri Már Eggertsson skrifar
Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari Vals, var ánægður með sigurinn
Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari Vals, var ánægður með sigurinn Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Valur vann ótrúlegan þriggja stiga sigur á deildarmeisturum Keflavíkur. Þetta var fyrsti leikurinn í úrslitaeinvígi Subway-deildar kvenna. Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari Vals, var afar ánægður með sigurinn.

„Við erum með djúpt og gott lið. Það eru fullt af stelpum hjá mér sem klæjar í puttana að spila og fengu tækifæri til þess í dag og þær sýndu það og sönnuðu að þær eru frábærar. Við ætluðum að koma og stela fyrsta leiknum og það tókst,“ sagði Ólafur Jónas eftir leik.

Ólafur hrósaði liðsheildinni en Valur var án Dagbjartar Daggar Karlsdóttur og Hallveigar Jónsdóttur.

„Ég veit hvað ég er með og ég treysti þessum stelpum fullkomlega og þær voru sterkari á svellinu í dag. Við munum mæta enn þá sterkari í næsta leik.“

Valur var í vandræðum með varnarleik Keflavíkur í fyrri hálfleik þar sem Keflavík þvingaði Val í mikið af töpuðum boltum. 

„Mér fannst við vera allt of æstar og leyfðum þeim að ýta okkur út úr því sem við vildum gera. Við tókum andardrátt inn í klefa og fórum aðeins að slaka á í hálfleik og þá gekk þetta betur. Það var lítið skorað í fyrri hálfleik sem ég var ánægður með þar sem við vorum aðeins sjö stigum undir.“

Leikurinn var jafn og spennandi í fjórða leikhluta og Ólafur var ánægður með hvernig hans lið kláraði leikinn.

„Ég var ánægður með margt. Eydís [Eva Þórisdóttir] kom inn á og spilaði mikilvægar mínútur í lokin. Hún var óhrædd og var tilbúin til þess að taka erfið skot. Mér fannst við sterkari á svellinu í fjórða leikhluta og pössuðum upp á boltann.“

„Við lærðum það á móti Haukum að við þurfum að stíga út og við þurfum að taka sóknarfráköst,“ sagði Ólafur Jónas Sigurðsson að lokum ánægður með sigurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×