Fótbolti

Genoa nálgast efstu deild eftir sigurmark Alberts

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Albert Guðmundsson skoraði sigurmark Genoa í dag.
Albert Guðmundsson skoraði sigurmark Genoa í dag. Simone Arveda/Getty Images

Albert Guðmundsson skoraði eina mark leiksins er Genoa vann mikilvægan 1-0 útisigur gegn Cittadella í ítölsku B-deildinni í fótbolta í dag. Albert og félagar þurfa nú aðeins sex stig í viðbót til að tryggja sér sæti í efstu deild.

Albert var á sínum stað í byrjunarliði Genoa og lék hann sem framherji í dag. Hann spilaði 85 mínútur fyrir gestina.

Heimamenn í Cittadella komu sér í klandur strax í fyrri hálfleik þegar Federico Giraudo fékk að líta sitt annað gula spjald á 43. mínút og þar með rautt. Albert og félagar léku því allann seinni hálfleikinn manni fleiri.

Gestirnir í Genoa nýttu sér loksins liðsmuninn á 70. mínútu þegar Albert kom boltanum í netið eftir undirbúning frá Massimo Coda og það reyndist eina mark leiksins.

Niðurstaðan því 1-0 útisigur Genoa sem situr í öðru sæti ítölsku B-deildarinnar með 66 stig þegar liðið á aðeins fjóra leiki eftir.

Genoa er níu stigum fyrir ofan Bari sem situr í öðru sæti deildarinnar, en Bari á leik til góða. Þar sem Genoa er eins og er með betri innbyrðis stöðu gegn Bari ættu sex stig til viðbótar að duga Alberti og félögum til að tryggja sér sæti í efstu deild, en aðeins tvö lið fara beint upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×