Fótbolti

Napoli með níu fingur á titlinum eftir sigur á Juventus

Aron Guðmundsson skrifar
Það var hart barist á Allianz leikvanginum í kvöld
Það var hart barist á Allianz leikvanginum í kvöld Vísir/Getty

Það er fátt sem getur komið í veg fyrir að Napólí standi uppi sem ítalskur meistari en liðið vann í kvöld dramatískan sigur á Juventus í ítölsku úr­vals­deildinni.

Juventus mætti til leiks í betri stöðu en oft áður í ítölsku úr­vals­deildinni en 15 stiga refsing sem liðið hafði áður fengið í ítölsku úr­vals­deildinni var á dögunum dregin til baka. Liðið skaust því upp í 3. sæti deildarinnar og sat þar með 59 stig fyrir leik kvöldsins gegn Napoli.

Það virtist allt stefna í marka­laust jafn­tefli á Alli­anz leik­vanginum í kvöld þegar að upp­bóta­tími venju­legs leik­tíma rann í garð.

Gestirnir frá Napólí, sem hafa farið á kostum á yfir­standandi tíma­bili í ítölsku úr­vals­deildinni, áttu hins vegar eftir einn ás uppi í ermi sinni.

Á þriðju mínútu upp­bóta­tímans, sem taldi alls sex mínútur, tóks Giacomo Raspadori að skora markið mikil­væga fyrir Napólí sem tryggði þeim sigur og stigin þrjú sem í boði voru. Markið skoraði hann eftir stoð­sendingu frá Eljif Elmas.

Sigurinn gerir það að verkum að Napólí situr eitt á auðum sjó á toppi ítölsku úr­vals­deildarinnar með 78 stig þegar að 31 um­ferð hefur verið leikin.

Sau­tján stig skilja á milli Napólí og Lazio sem situr í 2. sæti deildarinnar. Juventus er sem fyrr í 3. sæti deildarinnar með 59 stig.

Enn er töl­fræði­legur mögu­leiki á því að önnur lið geti skákað Napólí í bar­áttunni um ítalska meistara­titilinn en ekki er hægt að líta fram hjá því að þeir blá­klæddu eru í afar góðri stöðu þegar sjö um­ferðir eru eftir af deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×