Þetta sagði Sigmundur á þingfundi fyrr í dag. Hann bendir í upphafi ræðu sinnar á að ríkislögreglustjóri hafi ítrekað varað við aukinni skipulagðri glæpastarfsemi hér á landi og kallað eftir aðgerðum til að bregðast við.
„Við horfum líka upp á fíkniefnafaraldur, ekki hvað síst ópíóðafaraldur, sem borist hefur til Íslands. Nú heyrum við í auknum mæli, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð, fréttir af auknu ofbeldi meðal ungmenna og vopnaburði meðal barna og annarra ungmenna,“ segir Sigmundur.
Þetta kalli á viðbrögð stjórnvalda og samfélagsins alls.
„Hluti af þeim viðbrögðum hlýtur að vera að innleiða hér aftur ákveðinn aga og skilning á því hvað má og hvað má ekki og gefa skólastjórnendum og lögreglu tækifæri til að senda skýr skilaboð og fylgja þeim eftir,“ segir Sigmundur.
Segir það enga lausn að lögleiða fíkniefni
Hann bendir á að þegar óöld ríkti í New York borg hafi svokallaðri rúðubrotskenningu verið fylgt til að takast á við glæpaöldu.
„Sem fólst í því að taka hart á minni afbrotum, rúðubrotum og veggjakroti, gera strax við þar sem skemmdir höfðu verið unnar og fylgja því eftir. Hér er veggjakrot, að mati stjórnvalda, líklega bara list og skortur er á vilja til að fylgja eftir skilaboðum um hvað telst ásættanlegt og hvað ekki,“ segir Sigmundur.
Hann gagnrýnir að stjórnvöld hafi talað fyrir lögleiðingu fíkniefna.
„Það er ekki hægt að taka á vandanum með því að lögleiða glæpina. Við þurfum að gefa lögreglu og öðrum stjórnvöldum hér tækifæri til að takast á við þennan vanda og gera það af þeirri festu sem þessi stigvaxandi vandi samfélagsins kallar á.“