Íslenskir hlutabréfasjóðir hafa orðið fyrir þungu höggi eftir að gengi Alvotech, sem þar til fyrir skemmstu var verðmætasta fyrirtækið á markaði, hefur fallið um 36 prósent á aðeins sjö viðskiptadögum. Sjóðir Akta, einkum vogunarsjóðir í stýringu félagsins, höfðu meðal annars byggt upp verulega stöðu á skömmum tíma sem nam vel yfir fimm milljörðum króna daginn áður en tilkynnt var um að FDA myndi ekki veita Alvotech markaðsleyfi í Bandaríkjunum fyrir sitt stærsta lyf að svo stöddu. Greining Innherja á umfangi innlendra fjárfesta og sjóða í hluthafahópi Alvotech leiðir meðal annars í ljós að skuldsetning að baki hlutabréfastöðum í félaginu virðist hafa verið fremur hófleg.
Tengdar fréttir
FDA skaut fjárfestum í Alvotech niður á jörðina og óvissa um framhaldið
Skilaboð Lyfjaeftirlits Bandaríkjanna (FDA) til Alvotech, sem gerir enn athugasemdir við framleiðsluaðstöðu þess og setur áform um að hefja sölu á stærsta lyfi fyrirtækisins vestanhafs um mitt ár mögulega í uppnám, skutu fjárfestum skelk í bringu fyrir helgi og yfir hundrað milljarðar þurrkuðust út af markaðsvirði félagsins á einum viðskiptadegi – og felldi það um leið úr sessi sem hið verðmætasta í Kauphöllinni. Talsverð óvissa er um næstu skref en væntingar Alvotech, sem álíta athugasemdir FDA vera smávægilegar, eru að hægt verði að ljúka málinu fyrir tilsettan tíma í lok júní án þess að það kalli á þriðju úttektina af hálfu eftirlitsins á verksmiðju félagsins hér á landi.
Íslenskir fjárfestar komnir með um fimmtíu milljarða hlutabréfastöðu í Alvotech
Íslenskir fjárfestar, einkum verðbréfasjóðir, fjárfestingafélög og efnameiri einstaklingar, áttu í byrjun þessa árs hlutabréf í líftæknilyfjafyrirtækinu Alvotech fyrir að lágmarki um tuttugu milljarða króna miðað við núverandi gengi. Sú fjárhæð hefur núna tvöfaldast eftir nýafstaðið hlutafjárútboð félagsins en á meðal nýrra fjárfesta sem bættust þá í hluthafahópinn var lífeyrissjóðurinn Birta sem keypti fyrir tvo milljarða.