Innherji

Hild­ur: Mál­a­flokk­ur fatl­að­ra skýr­ir að­eins brot af fram­úr­keyrsl­u borg­ar­inn­ar

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins.

Rekstrarhalli Reykjavíkurborgar var nærri sexfaldur miðað við fjárhagsáætlun. Halli á A-hluta, sá hluti rekstrar borgarinnar sem fjár­­­magn­aður er með skatt­­tekj­um, var 15,6 milljarðar króna en fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir 2,8 milljarða halla. Á sama tíma fyrir ári nam tapið 3,9 milljörðum króna. Hlutfall skulda á móti tekjum jókst á milli ára úr 116 prósentum í 131 prósent.

„Það er athyglisvert að rýna hvar borgin fer framúr áætlunum, en framúrkeyrslan nemur rúmum 13 milljörðum. Borgarstjóri gerir nú víðreist og segir þessa óvæntu stöðu aðallega skýrast af málaflokki fatlaðs fólks. Þegar betur er að gáð fór sá málaflokkur aðeins 664 milljónir umfram fjárheimildir og skýrir því einungis brot af framúrkeyrslunni. Langveigamesti þátturinn eru rekstrargjöld sem fara nær átta milljarða umfram áætlanir,“ segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins.

Hún segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lagt til við síðustu fjárhagsáætlun að rekstrargjöld yrðu skorin niður um fimm prósent en tillögunni hafi verið hafnað af meirihlutanum.

Litið til rekstrarins fyrir fjármagnsliði og afskriftir var tapið 2,2 milljarðar króna sem 6,4 milljarðar króna verri niðurstaða en áætlað var.

Langveigamesti þátturinn eru rekstrargjöld sem fara nær átta milljarða umfram áætlanir.

Afkoma A‐hluta var eins og fyrr segir 12.781 milljónum króna lakari en áætlun gerði ráð fyrir. „Þar af var annar rekstrarkostnaður 5.455 milljónum króna yfir fjárheimildum, hækkun lífeyrisskuldbindingar nam 2.767 milljónum króna umfram áætlun og nettó fjármagnsgjöld 5.896 milljónum króna hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Rekstrartekjur A‐hluta voru 1.916 milljónir króna yfir áætlun, framlög jöfnunarsjóðs sveitarfélaga voru 1.386 milljónir króna umfram það sem áætlun gerði ráð fyrir,“ segir í fréttatilkynningu um uppgjörið.

Reykjavíkurborg hefur sagt að það fylgi ekki nægt fé með málefnum fatlaðra frá ríkinu. Fram kemur í tilkynningu með uppgjörinu að rekstrarniðurstaða borgarinnar án halla af málefnum fatlaðs fólks hafi verið neikvæð um 6,4 milljarða króna en hallinn af málaflokknum nam 9,3 milljöðrum króna á árinu. Samanlagður halli af málaflokki fatlaðs fólks á árunum 2011-2022 nemur 35,6 milljarðar króna.

Í tilkynningu frá borginni segir að þegar ljóst var að stefndi í að áætlanir myndu ekki standast vegna hækkandi verðbólgu og tafa á leiðréttingum frá ríkinu, hafi í byrjun september 2022 verið samþykktar í borgarráði aðgerðir til að takast á við halla í rekstri og önnur áhrif erfiðra skilyrða í ytra efnahagsumhverfi borgarinnar. 

Fram kemur í skýrslu Fjármála- og áhættusviðs Reykjavíkurborgar að borgin hafi á síðastliðnu ári brugðist við erfiðum aðstæðum í ytra efnahagsumhverfi borgarinnar sökum verðbólgu og hækkunar vaxta með margvíslegum hætti. Dregið hafi verið úr fjárfestingum og þar með lántökuþörf um sjö milljarða króna.

 „Gjaldskrár voru hækkaðar þannig að þær myndu lækka minna en ella að raungildi. Samræmdum reglum komið á um ráðningar og samningateymi skipað vegna vanfjármögnunar verkefna sem unnin eru fyrir ríkið. Auk þess sem fjármálastefna Reykjavíkurborgar var endurskoðuð með hliðsjón af fjárhagslegri stöðu og efnahagslegu ytra umhverfi. Mikilvægt er að fylgja vel eftir þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til og með þeim hætti að tryggja sjálfbærni í rekstri borgarinnar."

­„Ef tímabilið frá 2014 til 2022 er skoðað, sem er sá tími sem Samfylking hefur haldið um stjórnartauma borgarinnar, vekur sérstaka athygli hve skuldir hafa aukist hratt. Við sjáum að frá 2014 hafa skuldir á hvern borgarbúa aukist um 76 prósent að raunvirði. Þetta eru ískyggilegar tölur,“ segir Hildur.

Hún segir að skuldasöfnunin hafi átt sér stað þrátt fyrir gríðarlega tekjuaukningu borgarinnar yfir sama tímabil. Meðalskattbyrði á hvern Reykvíking hafi frá árinu 2014 aukist um 19 prósent að raunvirði. „Borgarbúar reynast með þyngstu skattbyrði allra íbúa á höfuðborgarsvæðinu, þrátt fyrir að þjónusta og lífsgæði mælist ítrekað verst í höfuðborginni. Hér fer ekki saman hljóð og mynd,“ segir Hildur

Hildur segir að traustur fjárhagur sé grunnforsenda öflugrar þjónustu hjá sveitarfélögum. „Rekstrarvandi borgarinnar er fyrir löngu farinn að bitna á þjónustunni. Hér mætti nefna biðlistavanda leikskólanna, viðhaldsvanda á skólahúsnæði, illa útfærðan snjómokstur og 600 manna stjórnendafund sem fram fór í liðinni viku,“ segir Hildur.

Það er að hennar sögn löngu tímabært að sýna ráðdeild í rekstri borgarinnar. „Við þurfum að ráðast í hagræðingar, minnka yfirbyggingu og hefja skipulega niðurgreiðslu skulda. Samhliða þarf að útvista fleiri verkefnum, láta af samkeppnisrekstri og hefja eignasölu. Þessar breytingar eru forsenda þess að hér verði hægt að bjóða framúrskarandi þjónustu, sem sæmir höfuðborg,“ segir Hildur.

Skuldir borgarinnar eru að stórum hluta verðtryggðar og hækka samhliða aukinni verðbólgu.

Í skýrslu stjórnar borgarstjóra og borgarráðs segir að umtalsverðar vendingar hafi verði í ytra efnahagsumhverfi Reykjavíkurborgar á árinu 2022. 

„Heimsfaraldur kórónaveiru sem veldur COVID‐19 og staðið hafði yfir frá því í byrjun mars 2020 er nú liðinn hjá, en í upphafi árs 2022 reið yfir enn ein bylgjan þegar nýtt afbrigði veirunnar náði hámarki í janúar og febrúar. Bylgjan fól í sér tímabundið álag á rekstur borgarinnar, einkum á sviði skóla‐ og velferðarmála og hjá Strætó bs. Viðsnúningur varð á vinnumarkaði þar sem atvinnuleysi hjaðnaði hratt og er nú lægra en fyrir faraldurinn. Stríðið í Úkraínu sem hefur staðið frá því í febrúar 2022 hefur auk kórónaveirunnar leitt til skorts á hrávöru og viðvarandi vandamála í aðfangakeðjum. Áhrifin hafa verið mikil á hagkerfi heimsins og verðbólga jókst hratt í öllum helstu viðskiptalöndum Íslands á síðasta ári. Vegna verðhækkana á húsnæðismarkaði, hárrar verðbólgu og þenslu í hagkerfinu hækkaði Seðlabanki Íslands stýrivexti jafnt og þétt á árinu 2022. Stýrivextir voru 6 prósent í lok ársins og höfðu hækkað um 4 prósent frá því í ársbyrjun þegar þeir stóðu í 2 prósent. Þessi staða setti svip sinn á rekstur borgarinnar og uppgjör á árinu 2022.“

Stærsta áhætta sem snýr að fjármagnslið A-hluta er verðbólguáhætta, segir í skýrslu Fjármála- og áhættusviðs. „Skuldir borgarinnar eru að stórum hluta verðtryggðar og hækka samhliða aukinni verðbólgu. Lántaka ársins 2022 hefur að mestu leyti verið verðtryggð sem eykur verðbólguáhættu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×