Körfubolti

Hópslagsmál brutust út í stórleik EuroLeague

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kevin Punter og Sergio Llull munda hnefana.
Kevin Punter og Sergio Llull munda hnefana. getty/Jesus Orihuela

Mikil slagsmál brutust út í leik Real Madrid og Partizan Belgrad í EuroLeague í körfubolta í gær.

Þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af leiknum braut Sergio Llull, leikmaður Real Madrid, gróflega á Kevin Punter. Samherjar hans í Partizan brugðust ókvæða við og fjandinn varð laus.

Tveir fyrrverandi NBA-leikmenn voru í aðalhlutverki í slagsmálunum. Madrídingurinn Guerschon Yabusele skellti Dante Exum, leikmanni Partizan, í gólfið og hann þurfti að yfirgefa völlinn á hækjum. Sin í tá hans slitnaði og hann meiddist einnig á efri vör að sögn læknis Partizan.

Serbneska liðið var fimmtán stigum yfir, 95-80, þegar leikurinn var stöðvaður. Hann var ekki flautaður aftur á og Partizan var dæmdur sigur. Liðið er 2-0 yfir í einvígi liðanna en þau mætast í þriðja sinn á þriðjudaginn.

Ljóst er að slagsmálin í leiknum í gær munu draga dilk á eftir sér og eflaust verða einhverjir leikmenn dæmdir í bann og sektir bíða liðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×