Körfubolti

Pökkuðu Grizzlies saman og sendu í sumar­frí | Kóngarnir knúðu fram odda­leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Los Angeles Lakers er komið í undanúrslit Vesturdeildar.
Los Angeles Lakers er komið í undanúrslit Vesturdeildar. Ronald Martinez/Getty Images

Los Angeles Lakers pakkaði Memphis Grizzlies ofan í ferðatösku og sendi á leið í sumarfrí með 40 stiga sigri í úrslitakeppni NBA deildarinnar í körfubolta í nótt. Sacramento Kings tryggðu sér oddaleik gegn ríkjandi meisturum Golden State Warriors með öruggum sigri.

Grizzlies unnu leik fimm í Memphis en segja má að það hafi aðeins frestað aftökunni. Það var aldrei spurning hvort liðið væri að fara með sigur af hólmi í Los Angeles í nótt. Lakers byrjaði leikinn af krafti og var 17 stigum yfir í hálfleik. Svo má með sanni segja að leikurinn hafi einfaldlega klárast í þriðja leikhluta þar sem Lakers skoraði 41 stig gegn 25 hjá gestunum.

Fjórði leikhluti var í raun tilgangslaus og þegar honum var loks lokið var staðan 125-85. Hreint út sagt ótrúlegur sigur Lakers sem er nú komið í undanúrslit Vesturdeildar.

D‘Angelo Russell var stigahæstur í liði Lakers með 31 stig, fjórar stoðsendingar og tvö fráköst. Þar á eftir kom LeBron James með 22 stig, 6 stoðsendingar og 5 fráköst. Anthony Davis skoraði 16 stig, tók 14 fráköst og varði 5 skot.

Hjá Memphis var Santi Aldama með 16 stig og 5 fráköst. Desmond Bane skoraði 15 stig, tók einnig 5 fráköst og gaf 2 stoðsendingar. Dillon Brooks lét sig enn á ný hverfa áður en fjölmiðlar náðu tali af Grizzlies eftir leik.

Leikur Golden State Warriors og Sacramento Kings var öllu jafnari, allavega í fyrsta leikhluta. Að honum loknum tóku Kings völdin og unnu á endanum nokkuð öruggan 19 stiga sigur, lokatölur 118-99.

Það þýðir að liðin mætast í oddaleik á heimavelli Kings um hvort þeirra fer áfram í undanúrslit.

Malik Monk var stigahæstur hjá Kings með 28 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar. Þar á eftir kom De‘Aaron Fox með 26 stig, 11 stoðsendingar og 4 fráköst. Hjá Warriors var Stephen Curry með 29 stig, 5 stoðsendingar og 4 fráköst. Klay Thompson kom þar á eftir með 22 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×