Körfubolti

Jókerinn fékk að­stoð við að leggja Durant og Booker að velli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Strákarnir frá Denver mættu klárir í slaginn.
Strákarnir frá Denver mættu klárir í slaginn. AAron Ontiveroz/Getty Images

Denver Nuggets nýtti allan þann mannskap sem liðið býr yfir til að leggja Phoenix Suns að velli í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum vestursins í NBA deildinni í körfubolta. Vinna þarf fjóra leiki til að komast í úrslit.

Bæði lið komust nokkuð örugglega í gegnum 1. umferð úrslitakeppninnar. Denver lenti í tiltölulega litlum vandræðum með slakt lið Minnesota Timberwolves og fór áfram eftir fimm leiki. Suns kláraði Los Angeles Clippers í jafn mörgum leikjum.

Þau voru því bæði nokkuð fersk þegar mætt var til leiks í nótt. Segja má að annar leikhluti hafi verið það sem skildi liðin að en þá naut sóknarleikur Denver sín í botn á meðan Sólirnar frá Phoenix komust hvorki lönd né strönd.

Þökk sé frábærum endi á fyrri hálfleik var Denver 17 stigum yfir í hálfleik og vann svo leikinn á endanum með 18 stigum, lokatölur 125-107. Staðan því orðin 1-0 í einvíginu en Denver endaði deildarkeppnina sem besta lið vestursins á meðan Sólirnar voru í smá brasi þar sem Kevin Durant missti af þónokkrum leikjum.

Stigahæstur í liði Denver var Jamal Murray með 34 stig en hann gaf einnig 9 stoðsendingar og tók 5 fráköst. 

Nikola Jokić skoraði 24 stig, tók 19 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Aaron Gordon kom þar á eftir með 23 stig en allt byrjunarlið Denver skoraði 10 stig eða meira í kvöld. Þá var Bruce Brown með 14 stig af bekknum.

Hjá Suns var Durant með 29 stig, 14 fráköst og staka stoðsendingu. Devin Booker skoraði 27 stig, gaf 8 stoðsendingar og tók 4 fráköst. Deandre Ayton setti 14 stig og tók 7 fráköst. Þá skoraði Chris Paul 11 stig og gaf 5 stoðsendingar.

Sacramento Kings og ríkjandi meistarar í Golden State Warriors mætast í oddaleik í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport 2 klukkan 19.30 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×