Haukar unnu dramatískan sigur á deildar- og bikarmeisturum ÍBV í framlengingu í gær, 25-24. Hafnfirðingar jöfnuðu þar metin í einvígi liðanna í undanúrslitunum, 1-1.
Haukar enduðu í 5. sæti Olís-deildarinnar og unnu svo Íslandsmeistara Fram í sex liða úrslitum, 2-0. Elín Klara skoraði sigurmark Hauka í seinni leiknum gegn Frömmurum með frábæru langskoti.
Elín Klara var frábær í leiknum í gær eins og hún hefur verið í allri úrslitakeppninni. Hún skoraði tólf mörk, gaf þrjár stoðsendingar, gaf þrjár vítasendingar og fiskaði eitt víti. Þá var hún með sex löglegar stöðvanir í vörninni og stal boltanum í tvígang. Fyrir frammistöðu sína fékk hún tíu í einkunn hjá HB Statz.
Þetta er önnur tían sem Elín Klara fær en hún fékk einnig tíu fyrir frammistöðuna í öðrum leiknum gegn Fram, tíu í sóknar-, varnar- og heildareinkunn. Hún fékk 9,88 fyrir fyrri leikinn gegn Fram og 7,13 fyrir fyrsta leikinn gegn ÍBV.
Í leikjunum fjórum í úrslitakeppninni hefur Elín Klara skorað samtals 42 mörk, eða 10,5 mörk að meðaltali í leik. Skotnýtingin er ekkert slor, eða 66,7 prósent. Elín Klara hefur tekið 25 víti í úrslitakeppninni og skorað úr 21 þeirra.
Þá er hún með þrettán stoðsendingar, níu vítasendingar og hefur fiskað fimm víti. Hún er ennfremur með 26 löglegar stöðvanir og hefur stolið boltanum fimm sinnum.
Elín Klara í úrslitakeppninni
- Mörk: 42
- Skotnýting: 66,7%
- Vítanýting: 84%
- Stoðsendingar: 13
- Vítasendingar: 9
- Fiskuð víti: 5
- Löglegar stöðvanir: 26
- Stolnir: 5
Elín Klara og stöllur hennar í Haukum fara til Vestmannaeyja á morgun og mæta þar ÍBV í þriðja leik liðanna.
Leikur ÍBV og Hauka hefst klukkan 19:40 á morgun og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 5.