Erlent

Níu látnir og sjö særðir eftir skot­á­rás í skóla í Bel­grad

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vopnuð lögregla umkringdi skólann.
Vopnuð lögregla umkringdi skólann. AP/Darko Vojinovic

Fjórtán ára drengur skaut á kennara sinn, samnemendur og öryggisverði í Vladislav Ribnikar-grunnskólanum í Belgrad í Serbíu í morgun. Níu eru látnir, átta nemendur og öryggisvörður.

Kennarinn og sex börn voru flutt á sjúkrahús.

Reuters hefur eftir Milan Milosevic, föður nemanda í skólanum að dóttir hans hafi verið í skólastofunni þegar árásin hófst. „Henni tókst að flýja. [Drengurinn] byrjaði á því að skjóta á kennara og hóf svo að skjóta af handahófi,“ sagði Milosevic í samtali við miðilinn N1.

„Ég sá öryggisvörðinn liggja undir borðinu. Ég sá tvær stúlkur í blóðugum bolum. Þau segja [árásarmanninn] hafa verið þöglan og góðan nemanda. Hann var nýr í bekknum,“ segir Milosevic, sem flýtti sér á vettvang þegar hann heyrði af árásinni.

Skotárásir af þessu tagi eru fátíðar í Serbíu, þar sem skotvopnalöggjöfin er mjög ströng. Mikill fjöldi ólöglegra skotvopna er hins vegar í landinu í kjölfar stríðsátaka undir lok síðustu aldar.

Fréttin var uppfærð með fjölda látinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×