Fótbolti

Flugeldar um alla borg þegar Napoli tryggði sér titilinn

Smári Jökull Jónsson skrifar
Þessi gat ekki haldið aftur af tárunum.
Þessi gat ekki haldið aftur af tárunum. Vísir/Getty

Síðast þegar Napoli vann ítalska meistaratitilinn var Diego Maradona í aðalhlutverki hjá liðinu. Það er því engin furða að gríðarleg fagnaðarlæti hafi brotist út í borginni eftir að liðið tryggði sér titilinn í kvöld.

Napoli er Ítalíumeistari í knattspyrnu en þetta varð ljóst eftir að liðið gerði jafntefli við Udinese í kvöld. Þetta er fyrsti meistaratitill Napoli síðan vorið 1989 en þá var goðsögnin Diego Maradona í aðahlutverki hjá liðinu.

Gríðarlegur fögnuður braust út um alla borg þegar titilinn var í höfn en leikurinn í kvöld fór fram í Udine sem er í rúmlega 800 kílómetra fjarlægð frá Napolíborg. Fólk flykktist út á götur og fagnaði sigri og flugeldum var skotið upp frá hverju húsi.

Gleðin var svo sannarlega ósvikin.Vísir/Getty

Stuðningsmenn Napoli, jafnt ungir sem aldnir, hreinlega grétu af gleði og það er nokkuð ljóst að fögnuðurinn mun halda áfram næstu daga.

Það mátti sjá myndir af Diego Maradona á veggjum, fánum og á bolum stuðningsmanna.Vísir/Getty

Victor Osimhen var hetja Napoli í kvöld en hann skoraði jöfnunarmarkið í síðari hálfleik í leiknum gegn Udinese. Osimhen hefur átt frábært tímabil en að undanförnu hafa fréttir borist af því að mörg af stærstu liðum Evrópu séu með hann á óskalistanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×