Um langt skeið hefur loðað við Pírata að flokkurinn sé óstjórntækur og líkast til er þessi ásýnd ein skýring á því að flokkurinn hefur átt erfitt uppdráttar. Á meðan Samfylkingin flýgur hátt í könnunum hanga Píratar í kringum það fylgi sem þeir fengu í síðustu tveimur Alþingiskosningum. Þeim gengur brösuglega í baráttunni um hylli kjósenda þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi aldrei verið óvinsælli.
Margt veldur því að kjósendur hika við að fela Pírötum hið ábyrgðarmikla hlutverk að sitja í ríkisstjórn. Nafn flokksins, vörumerkið sem mótar fyrstu hughrifin, er síst til þess fallið að hrífa til sín þá fjölmörgu kjósendur sem setja efnahagsmál eða velferðarmál á oddinn. Ofan á það bætist uppreisn þingmanna gegn hefðbundnum klæðaburði á Alþingis og endalausar fyrirspurnir til ráðuneyta sem koma að litlu gagni. Nýlega var fjármálaráðuneytið spurt um vaxtakjör ríkissjóðs, sem eru opinberar upplýsingar, og enn nýrri fyrirspurn um sannleiksgildi frétta er byggð á algjörum misskilningi viðkomandi þingmanns.
Framganga forystunnar á Alþingi er það sem aftrar flokknum mest. Fyrr í vikunni birtist nefndarálit minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, sem þingmaður Pírata var skrifaður fyrir. Í álitinu, sem snýst í grófum dráttum um innleiðingu á Evrópureglum um sjálfbærar fjárfestingar, setur þingmaðurinn sig upp á móti því að fjárfestingar í nýtingu á kjarnorku verði felldar undir skilgreininguna á sjálfbærum fjárfestingum.
Furðuleg þessi andstaða gegn fjárfestingu í orkugjafa, sem verður aldrei nýttur hér landi og er mun hreinni en jarðefnaeldsneytið sem alþjóðasamfélagið vill hverfa frá. Og enn furðulegri er sú afstaða, eins og kemur fram í álitinu, að stjórnvöld hefðu frekar átt að beita sér fyrir því að „hreinsa reglugerðina af hagsmunagæslu kjarnorkuframleiðenda“ heldur en að krefjast undanþágu frá Evrópureglum um losunargjöld í millilandaflugi. Eins og fram hefur komið í máli forstjóra Icelandair og Play geta losunargjöldin ógnað stöðu Íslands sem tengimiðstöð milli Evrópu og Norður-Ameríku.
„Þessi forgangsröðun bendir því miður til þess að skammtíma fjárhagslegir hagsmunir gangi framar hagsmunum framtíðarkynslóða og baráttunni gegn loftslagsbreytingum í huga ríkisstjórnarinnar,“ sagði í nefndarálitinu.
Álitið, sem er annars fremur ómerkilegt, undirstrikar áhyggjur kjósenda. Hvernig er hægt að treysta flokki til forystu þegar þingmennirnir taka hugðarefni græningja á meginlandi Evrópu fram yfir hagsmuni íslenskrar ferðaþjónustu, einnar helstu útflutningsstoðar hagkerfisins?
Um miðjan síðasta áratug, þegar fjármálahrunið var enn í fersku minni og internetið umbylti samfélaginu á ógnarhraða, var kannski hljómgrunnur fyrir nýjum flokki með „flatan strúktúr“ og engan leiðtoga.
Það er engin tilviljun að Samfylkingin er á miklu skriði í könnunum. Með tilkomu nýs formanns hefur flokkurinn á skömmum tíma endurheimt ákveðinn trúverðugleika í efnahagsmálum – afglöp í rekstri Reykjavíkurborgar gætu að vísu sett strik í reikninginn – og Samfylkingin virðist ekki lengur vera sá flokkur sem eltir hvert mál, sama hversu ómerkilegt það er. Með því að einblína á það sem skiptir fólk raunverulega máli, einkum velferðarmál, hefur jafnaðarmannaflokkurinn náð að hífa fylgið upp í nærri 28 prósent.
Hið sama er ekki hægt að segja um Pírata. Um miðjan síðasta áratug, þegar fjármálahrunið var enn í fersku minni og internetið umbylti samfélaginu á ógnarhraða, var kannski hljómgrunnur fyrir nýjum flokki með „flatan strúktúr“ og engan leiðtoga. Þá var kannski eftirspurn eftir stjórnmálaafli sem lagði ofuráherslu á beint lýðræði og neitaði að skilgreina sig á pólitíska ásnum þó að slagsíðan til vinstri hefði fljótt komið í ljós.
Síðan þá hefur tíðarandinn breyst en Píratar eru enn við sama heygarðshornið. Nú þegar meira en tíu ár eru liðin frá stofnun flokksins höfða þessar áherslur ekki til fólks í sama mæli og þær gerðu, og nafnið sem áður var ögrandi er nú orðið hjákátlegt. Þeir eru hluti af kerfinu en glíma samt sem áður við þann þráláta vanda að fólk á erfitt með að taka flokkinn alvarlega.
Höfundur er viðskiptablaðamaður á Innherja