Gildi, þriðji stærsti lífeyrissjóður landsins með hreina eign upp á samtals um 1.200 milljarða, var þannig skráður fyrir 3,6 prósenta eignarhlut í Oculis í lok ársins 2024, að því er lesa má út úr nýjum ársreikningi sjóðsins. Gangvirði þeirra bréfa í bókum Gildis var á þeim tíma um fjórir milljarðar, talsvert minna en kostnaðarverð við kaupin sem er bókfært á þrjá milljarða.
Miðað við núverandi hlutabréfaverð Oculis, sem stendur í 2.580 krónum á hlut eftir nokkra gengishækkun í dag og félagið með markaðsvirði upp á um 140 milljarða, þá er hlutabréfastaða Gildis í félaginu metin á um fimm milljarða um þessar mundir.
Lífeyrissjóðurinn hafði ekki átt beinan eignarhlut í Oculis í byrjun síðasta árs en ætla má að Gildi hafi verið á meðal lífeyrissjóða og annarra innlendra fjárfesta sem tóku þátt í samanlagt um átta milljarða hlutafjárútboði – verðið í því var 1.650 krónur á hlut – í aðdraganda þess að félagið var tvískráð á markað hér heima í apríl 2024. Hlutabréfaverð Oculis fór að hækka skarpt undir lok síðasta árs, meðal annars þegar íslenskir lífeyrissjóðir fóru að bæta nokkuð við stöðu sína eins og Innherji hefur áður fjallað um, og fór gengið yfir 3.300 um miðjan janúar.

Frá þeim tíma hefur gengið hins vegar fallið um nærri fjórðung, svipað og í tilfelli hinna vaxtarfélaganna í Kauphöllinni – Alvotech og Amaroq. Gildi er sömuleiðis einn stærsti hluthafinn í Amaroq með nærri fjögurra prósenta hlut en á hins vegar ekki eitt einasta bréf í Alvotech, næst verðmætasta skráða félagi landsins.
Eignarhlutur Gildis í Oculis í lok síðasta árs samanstóð meðal annars af þeim bréfum sem hann fékk í sinn hlut þegar Brunnur Vaxtarsjóður lækkaði hlutafé sitt og afhenti öll bréf sín í augnlyfjaþróunarfyrirtækinu til sjóðsfélaga um síðustu áramót. Brunnur hafði átti samtals rúmlega 2,5 milljónir hluta að nafnvirði, eða um 5,4 prósenta eignarhlut á þeim tíma, og miðað við það fékk Gildi við þessa ráðstöfun til sín bréf í Oculis – lífeyrissjóðurinn var annar af stærstu hluthöfum framtakssjóðsins með fimmtungshlut – sem jafngilti um eins prósenta hlut.
Oculis, sem er jafnframt skráð á markað Bandaríkjunum, birtir ekki reglulegan lista yfir stærstu hluthafa félagsins og því gæti eignarhlutur Gildis hafa stækkað nokkuð frá áramótum. Talsvert velta var með bréf félagsins á fyrstu vikum ársins, einkum drifin áfram af eftirspurn lífeyrissjóða, og þá voru þeir jafnframt á meðal innlendra fjárfesta sem keyptu um helminginn af 14 milljarða útboði sem Oculis kláraði um miðjan síðasta mánuð.
Í gögnum sem Oculis skilaði nýlega til Verðbréfaeftirlits Bandaríkjanna (SEC) er upplýst um eignarhlut stjórnenda og þeirra hluthafa sem fara með yfir fimm prósenta hlut.
Langsamlega stærsti hluthafinn í árslok 2024 var sem fyrr fjárfestingarsjóðurinn LSP7, sá umsvifamesti á sviði lífvísinda í Evrópu, með ríflega 13 prósenta hlut. Þar á eftir komu sjóðirnir Earlybird, Pivotal og BVCF sem allir fara með hvor um sig með um eða rétt yfir fimm prósenta hlut. Forstjóri Oculis, Riad Sherif, átti samanlagt um 2,2 prósenta hlut á meðan Páll Ragnar Jóhannesson, sem hefur verið rekstrarstjóri Oculis á Íslandi, fór með um 1,5 prósenta hlut.
Ekki liggja fyrir upplýsingar um hversu stóra stöðu aðrir helstu íslensku lífeyrissjóðirnir eru komnir með í Oculis – enginn þeirra hefur enn birt ársreikning fyrir 2024 líkt og Gildi – en bæði Lífeyrissjóður verslunarmanna og Birta fengu hins vegar úthlutað jafngildi um eins prósenta eignarhlut um áramótin frá Brunni vaxtarsjóð.
Hið nýja hlutafé sem Oculis sótti sér frá erlendum og innlendum fjárfestum í liðnum mánuði verður meðal annars nýtt til að hraða klínískri þróun á mögulega byltingarkenndu lyfi sem fékk afar jákvæðar niðurstöður úr rannsóknum í byrjun ársins.
OCS-05 er eitt þriggja lyfja sem Oculis er með í þróun – og það sem er skemmst á veg komið – en í viðbrögðum greinenda eftir að niðurstöðurnar voru kunngjörðar var bent á að félaginu hefði tekist með fordæmalausum hætti að koma í veg fyrir niðurbrot á sjónhimnubyggingu sjúklinga og um leið framkallað verulega bætta sjón hjá þeim. Niðurstaða rannsóknarinnar opni á þann möguleika að hægt verði að bjóða upp á meðferðir við öðrum taugasjúkdómum í augnlækningum, svo sem gláku og jafnvel MS-sjúkdóminum. Það gæti aftur gert möguleika OCS-05 til markaðssetningar stærri að umfangi heldur en samanlagður markaður annarra lyfja í þróun Oculis – sem eru OSC-01 og OSC-02.
Það lyf sem er lengst er komið í þróun hjá Oculis (OCS-01) byggir á einkaleyfavarinni tækni og í fyrra var tilkynnt um jákvæðar niðurstöður í klínískum prófunum í svonefndum alþjóðlegum fasa 3 til meðhöndlunar á sjónhimnubjúg í sykursýki. OCS-01 gæti orðið fyrsta lyfið í formi augndropa til meðhöndlunar á sjúkdómi í afturhluta augans en Oculis er með einkaleyfi á því til ársins 2040.
Oculis hefur áður sagt að það áætli að verða tilbúið til að leggja inn umsókn um markaðsleyfi til FDA í Bandaríkjunum á fyrsta ársfjórðungi 2025. Væntingar standa til þess að það leyfi muni fást um ári síðar.
Oculis birti ársuppgjör sitt fyrr í þessum mánuði og þar kom meðal annars fram að handbært fé hafi verið um 109 milljónir Bandaríkjadala um áramótin, en til viðbótar komu 93 milljónir dala sem nettó afrakstur hlutafjárútboðsins í febrúar. Rekstratap félagsins á árinu 2024 var um 73 milljónir dala, en þar af nam rannsóknar- og þróunarkostnaður um 52 milljónir dala.
Greinendur hækka verðmat sitt á Oculis
Eftir birtingu uppgjörsins kom meðal annars fram í uppfærðu verðmati frá greinanda Bank of America – sem hækkaði verðmatið sitt á félaginu úr 31 í 32 dali á hlut – að sjóðstreymissbruni hefði verið í samræmi við væntingar á fjórða fjórðungi. Hann telur að ef litið er á lyfjapípu Oculis þá sé félagið undirverðlagt miðað við mögulegar sölutekjur af þeim lyfjum. Þá hækkaði einnig greinandi fjárfestingabankans Baird verðmat sitt á Oculis úr 37 í 41 dali á hlut.
Sé litið á niðurstöður verðmata sem sjö erlendir greinendur hafa gert á Oculis – þeir mæla allir með kaupum – þá gefa þau öll til kynna að félagið sé verulega undirverðlagt. Greiningar sýna verðmat á félaginu á bilinu um 22 til allt að 41 dalir á hlut en meðal verðmatsgengið er um 32 dalir á hlut, sem er um 70 prósent yfir núverandi markaðsgengi – en það stendur í ríflega 19 dölum.
Fyrirtækið Oculis á rætur sínar að rekja til Íslands þar sem í dag starfa um þriðjungur starfsmanna. Stofnendur Oculis, þeir dr. Einar Stefánsson, prófessor í augnlækningum, og dr. Þorsteinn Loftsson, prófessor í lyfjafræði, eru jafnframt stórir hluthafar í félaginu.