Fótbolti

Ný­bakaðir meistarar unnu og Verona náði í dýr­mæt stig í fall­bar­áttunni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Victor Osimhen hefur verið iðinn við kolann á tímabilinu.
Victor Osimhen hefur verið iðinn við kolann á tímabilinu. Vísir/Getty

Nýbakaðir Ítalíumeistarar Napoli í knattspyrnu unnu sigur á Fiorentina í Serie A í dag. Eftir leik voru leikmenn hylltir af stuðningsmönnum liðsins.

Napoli tryggði sér titilinn í vikunni en liðið hefur haft mikla yfirburði í Serie A í vetur. Gríðarlega mikil fagnaðarlæti brutust út í Napolíborg enda þrjátíu og þrjú ár liðin síðan Napoli vann titilinn síðast.

Í dag var liðið síðan komið aftur heim og þar hélt partýið áfram. Victor Osimhen, sem var einmitt hetja liðsins í vikunni, skoraði eina mark leiksins gegn Fiorentina í dag. Að leik loknum voru leikmenn hylltir og var mikið um dýrðir á Diego Maradona leikvanginum þegar þeir voru kallaðir upp á svið hver á fætur öðrum.

Leikmenn Napoli voru hylltir eftir leik í dag.Vísir/Getty

Juventus færðist nær sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð eftir 2-0 útisigur á Atalanta. Samuel Iling-Junior og Dusan Vlahovic skoruðu mörkin en Juventus situr í öðru sæti deildarinnar.

Þórir Jóhann Helgason sat allan tímann á varamannabekk Lecce sem tapaði á heimavelli í mikilvægum leik gegn Verona. Verona eru nú með 30 stig, einu stigi á eftir Lecce en Spezia er í fallsæti með 27 stig.

Þá gerðu Torinu og AC Monza 1-1 jafntefli í þýðingalitlum leik en bæði lið eru um miðja deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×