Erlent

Á þriðja tug látnir eftir að bát hvolfdi á Ind­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Báturinn hefur nú verið dreginn að landi.
Báturinn hefur nú verið dreginn að landi. AP

Að minnsta kosti 22 eru látnir eftir að ferðamannabát hvolfdi skammt frá landi í Kerala-héraði á Indlandi í gærkvöldi.

AP hefur eftir talsmanni yfirvalda að rúmlega þrjátíu manns hafi verið í bátnum og að börn séu í hópi látinna.

Lögreglumaðurinn Abdul Nazar segir að reiknað sé með að björgunarlið komi til með að finna fleiri látna innan í bátnum þegar búið væri að draga hann að landi. Einhverra er enn saknað, en fjórir hafa verið fluttir á sjúkrahús.

Ferðamannabátinn hvolfdi við ósa Poorappuzha-fljóts við strandbæinn Tanur. Nazar segir að flestir um borð hafi verið ferðamenn.

Leit að farþegum stendur enn yfir í fljótinu.AP

Nazar segir að rannsókn sé hafin á slysinu en að ýmislegt bendi til að ástæðu þess megi rekja til þess að of margir hafi verið umborð.

Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, segist miður sín vegna frétta af slysinu og hefur heitið bóta til fjölskyldna og aðstandenda hinna látnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×