Innlent

Fjölgar mest í Siðmennt og Kaþólsku kirkjunni

Máni Snær Þorláksson skrifar
Meðlimum þjóðkirkjunnar fækkar enn.
Meðlimum þjóðkirkjunnar fækkar enn. Vísir/Vilhelm

Meðlimum þjóðkirkjunnar hefur fækkað um 706 síðan í síðastliðnum desember. Fjölgun meðlima í trú- og lífsskoðunarfélagi hefur verið mest í Siðmennt, næst mest í Kaþólsku kirkjunni og svo Ásatrúarfélaginu. 

Alls eru nú 226.763 skráðir í þjóðkirkjuna en meðlimum hennar hefur fækkað um 0,3 prósent frá því í síðastliðnum desember. Í upphafi mars hafði meðlimum þjóðkirkjunnar fækkað um 530 og hefur meðlimum hennar því fækkað um 176 á undanförnum tveimur mánuðum. 

Hlutfallslega er fækkun meðlima í trú- og lífsskoðunarfélagi mest í Ananda Marga eða tíu prósent. Meðlimir þess félags voru þó einungis tíu í desember en þeim hefur fækkað um einn síðan þá.

Síðan í desember í fyrra hafa 193 skráð sig í Siðmennt og er það mesta fjölgunin á því tímabili. Þá hafa 132 skráð sig í Kaþólsku kirkjuna, sem er næst fjölmennasta trú- og lífsskoðunarfélag landsins, og 117 í Ásatrúarfélagið á sama tímabili. 

Hlutfallslega er fjölgunin þó mest í Lífspekifélagi Íslands. Meðlimir þess voru 29 í desember en þeir eru 46 í dag, það er hækkun sem nemur 58,6 prósentum.

Um 7,7 prósent landsmanna eru skráðir utan trú- og lífsskoðunarfélaga eða alls 30.207 manns. Þeir einstaklingar hafa tekið afstöðu til þeirrar skráningar sinnar en alls eru 76.251 með ótilgreinda skráningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×