Handbolti

Tandri framlengir en Arnór hættir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tandri Már Konráðsson verður áfram hjá sínu uppeldisfélagi.
Tandri Már Konráðsson verður áfram hjá sínu uppeldisfélagi. vísir/diego

Tandri Már Konráðsson hefur skrifað undir nýjan samning við Stjörnuna en markvörðurinn Arnór Freyr Stefánsson hefur lagt skóna á hilluna.

Tandri er fyrirliði Stjörnunnar og hefur verið í lykilhlutverki í liðinu síðan hann kom heim úr atvinnumennsku 2019.

Hann var orðaður við bikarmeistara Aftureldingar en ákvað að framlengja samning sinn við Stjörnuna til 2025.

Í tilkynningu frá Stjörnunni í dag kemur fram að Arnór sé hættur að spila. Hann hefur þó ekki sagt skilið við handboltann eða Stjörnuna því hann verður markvarðaþjálfari hjá meistaraflokkum og yngri flokkum félagsins.

Arnór lék með Stjörnunni í tvö ár. Þar áður lék hann með ÍR, HK, Aftureldingu og í Danmörku.

Stjarnan missti aðal styrktaraðila sinn, TM, og félagið þarf að sníða sér stakk eftir vexti eftir þær breytingar. Þetta kom fram í viðtali við Pétur Bjarnason, formann handknattleiksdeildar Stjörnunnar, á Vísi í síðustu viku.

„Það eru kynslóðaskipti hjá okkur. Þetta er hlutur sem við erum búnir að stefna að í á fjórða ár. Þetta er bara partur af því plani. Við ætlum að byrja uppbyggingu með uppöldum Stjörnuleikmönnum,“ sagði Pétur meðal annars.

Stjarnan endaði í 6. sæti Olís-deildarinnar í vetur og tapaði fyrir ÍBV, 2-0, í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×