Reiknað er með að um tveir milljónir rúmmetra af bergi gæti brotnað úr fjallinu sem gnæfir yfir bæinn og fallið niður í dalinn á næstu dögum.
BBC segir frá því að rýmingin komi íbúum bæjarins, sem telja um sjötíu, ekki algerlega í opna skjöldu. Sérfræðingar um nokkurt skeið talið hættu á berghlaupi á þessum stað.
Brienz er að finna í héraðinu Graubünden í austurhluta Sviss. Bærinn er byggður í halla sem hefur leitt til þess að turn kirkju bæjarins hefur tekið að halla með árunum og þá hafa fjölmargar sprungur myndast í húsum bæjarins. Sömuleiðis eru íbúar ekki óvanir því að grjót hrynji niður hlíðar fjallsins og inn í bæinn.
Jarðfræðingar hafa varað við að berghlaup komi til með að verða algengari á þessum slóðum á næstu árum. Eftir því sem jöklar hopa meira verður sífrerinn í fjallinu minni og þar með verður bergið óstöðugra.
Árið 2017 skall mikil aurskriða á þorpið Bondo í Graubünden þar sem hálfur bærinn fór á kaf og átta manns fórust.