Eyjólfur Árni segist gera ráð fyrir að hægt verði að ganga frá ráðningu á nýjum framkvæmdastjóra „á næstu vikum“.
Greint var frá því í lok mars að Halldór Benjamín Þorbergsson hefði ákveðið að láta af störfum sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Hann mun taka við starfi forstjóra fasteignafélagsins Regins.
Halldór Benjamín hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra SA í sjö ár og staðið í stórræðum í kjarasamningsgerð síðustu ár.
Nýr framkvæmdastjóri mun taka við keflinu í byrjun sumars en viðræður um langtímakjarasamning á almennum markaði eru þegar hafnar eftir samþykkt skammtímakjarasamninga til eins árs í vetur.
Halldór Benjamín sagði í mars að það væru óneitanlega blendnar tilfinningar sem fylgi því að kveðja þennan vettvang, enda hafi það verið alger forréttindi að gegna starfi framkvæmdastjóra SA. „Starfið hjá SA hefur verið mjög lærdómsríkt og skemmtilegt en það er á sama tíma engum hollt að vera í slíku starfi of lengi,“ sagði Halldór.