Fréttir

Skagfirðingar fagna með balli í Miðgarði í Varmahlíð

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Varmahlíð í Skagafirði. Þar verður uppskeruhátíð körfuknattleiksdeildar Tindastóls.
Frá Varmahlíð í Skagafirði. Þar verður uppskeruhátíð körfuknattleiksdeildar Tindastóls. Vísir/Vilhelm

Nýkrýndir Íslandsmeistarar Tindastóls verða hylltir í hinu fornfræga félagsheimili Skagfirðinga, Miðgarði í Varmahlíð, annaðkvöld, föstudagskvöld. Þar verður uppskeruhátíð og sveitaball.

Körfuknattleiksdeild Tindastóls var fyrir úrslitaleikinn gegn Val í kvöld búin að auglýsa uppskeruhátíð, hvernig sem færi, þar sem góðu gengi yrði fagnað. Núna er ljóst að uppskeruhátíðin verður sigurhátíð Íslandsmeistara.

Í héraðsmiðlinum Feyki kemur fram að dagskráin hefjist klukkan 19. Hálftíma síðar verður móttaka fyrir leikmenn og starfslið meistaraflokka Tindastóls. Borðhald hefst klukkan 20 en um veitingar sér Grettistak auk þess sem Sauðárkróksbakarí sér um súkkulaðiköku í eftirrétt.

Að borðhaldi loknu verður ball þar sem Stuðlabandið og Úlfur Úlfur koma öllum í gírinn, eins og það er orðað.

Sjálfboðaliðar, stuðningsmenn og aðrir velunnarar Tindastóls eru hvattir til að mæta á uppskeruhátíðina og fagna góðu gengi með sínu fólki.

Miðaverði er sagt stillt í hóf. Matur og ball kostar 5.000 krónur en þeir sem aðeins vilja komast á ballið borga 3.000 krónur. Miðasala er á Stubbnum en þeir sem vilja taka þátt í borðhaldi þurfa að vera búnir að panta fyrir hádegi á morgun, föstudag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×