Innlent

Heitasti dagur ársins í dag

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Hiti fór yfir tuttugu stig á Austurlandi í dag og var dagurinn því sá heitasti ársins. Á Egilsstaðaflugvelli mældist hitinn 20,6 rétt eftir klukkan 12:00.

Svona leit kort Veðurstofunnar út klukkan 13:00 í dag en tuttugu gráðurnar mældust milli 12 og 13.Veðurstofan

„Þetta er hæsti hiti ársins, það skreið yfir 20 stig á Austurlandi. Þetta er í fyrsta skipti í ár. Hann rétt skreið yfir þetta núna. Þetta getur komið hvenær sem á vori, þetta náði sér niður á Austurlandi en svo kólnar aðeins á morgun. Þetta var stutt, hitinn rétt skreið yfir en það var hlýtt þarna í dag,“ segir Birgir Örn Höskuldsson veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Hann segir að hitinn hafi farið yfir tuttugu gráðurnar rétt eftir hádegi, en þó ekki nema nokkrar kommur. Svipaður hiti hafi í skamman tíma mælst í Hallormsstaðaskógi, á Borgarfirði eystri og á Seyðisfirði. 

Birgir Örn segir að nú fari að kólna aðeins.

„Næstu dagar verða svolítið vindasamir og vætusamir á höfuðborgarsvæðinu en það verður fínt á Norðaustur- og Austurlandi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×