Fótbolti

Albert enn á ný á skotskónum á Ítalíu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Albert Guðmundsson hefur verið að gera góða hluti hjá Genoa.
Albert Guðmundsson hefur verið að gera góða hluti hjá Genoa. Getty

Albert Guðmundsson gerði eitt marka Genoa sem vann 4-3 sigur á Bari á heimavelli í ítölsku Serie B deildinni í dag. Þá var Mikael Egill Ellertsson í byrjunarliði Venezia sem lék gegn Parma.

Albert Guðmundsson og félagar hans í Genoa tryggðu sér á dögunum sæti í Serie A deildinni á næstu leiktíð en það er efsta deildin í ítalska boltanum. Í kvöld lék liðið síðasta leik sinn í deildakeppninni á tímabilinu þegar liðið tók á móti Bari á heimavelli.

Albert var á sínum stað í byrjunarliðinu og hann var á skotskónum líkt og hann hefur verið undanfarið. Hann skoraði annað mark Genoa á á 34. mínútu eftir sendingu Massimo Coda og kom Genoa þá í 2-1.

Staðan var 2-1 í hálfleik en gestunum tókst að jafna um miðjan síðari hálfleikinn en Caleb Ekuban kom Genoa yfir á ný á 75. mínútu. Eftir að Walid Cheddira jafnaði fyrir Bari á 86. mínútu leit allt út fyrir að leikurinn myndi enda með jafntefli. Á lokasekúndunum fékk Genoa hins vegar víti sem Domenico Criscito skoraði úr og tryggði Genoa sigur.

Hinn margreyndi Criscito hafði komið inn af bekknum tveimur mínútum áður fyrir Albert Guðmundsson og var ekki lengi að setja mark sitt á leikinn.

Mikael Egill Ellertsson var í byrjunarliði Venezia sem tapaði 2-1 á útivelli gegn Parma. Mikael Egill var tekinn af velli á 62. mínútu en þá var staðan 1-1. Þrátt fyrir tapið náði Venezia sæti í umspili um sæti í úrvalsdeildinni en liðið endaði í 8. sæti og fer í keppni við liðin í 5. - 8. sæti um sæti í öðru umspili þar sem liðin í 3. - 4. sæti bíða.

Þá sat Hjörtur Hermannsson allan tímann á bekknum hjá Pisa sem tapaði á heimavelli gegn Spal. Pisa lýkur keppni í 11. sæti deildarinnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×