Fótbolti

Sara segir orðróm um deilur hjá Juventus ekki sannan

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sara Björk gekk til liðs við Juventus síðasta sumar.
Sara Björk gekk til liðs við Juventus síðasta sumar. Visir/Getty

Knattspyrnukonan Sara Björk Gunnarsdóttir gæti verið á leiðinni frá Juventus en netmiðlar greina frá ósætti á milli hennar og hluta leikmannahópsins.

Sara Björk gekk til liðs við Juventus í júní í fyrra og hefur komið við sögu í átján leikjum hjá liðinu á tímabilinu. Hún er með samning við Juventus út næsta tímabil.

Blaðamaðurinn Mauro Munno sem þekkir vel til hjá Juventus segir að Sara Björk hafi lent upp á kant við hluta leikmannahópsins. Hann segir jafnfram að vel raunhæft sé að Sara Björk yfirgefi félagið í sumar.

Á vefmiðlinum Juventusnews24 er greint frá ósætti á milli Söru Bjarkar og þjálfarans Joe Montemurro. Þar segir að Juventus sé nú að íhuga að losa sig við Söru Björk og að ítölsk knattspyrna sé ekki tilbúin að styðja við leikmann eins og hana. Einnig kemur þar fram að á tíma þjálfarans Montemurro hjá Arsenal hafi hann lent upp á kant við stærstu stjörnur liðsins og að hann hafi ekki náð því besta úr Söru Björk hjá Juventus.

Þar segir ennfremur að Stefano Braghin, yfirmaður kvennaliðs Juventus, muni á næstu vikum reyna að miðla málum á milli aðila en að samheldni liðsins verði þó í forgangi. Í greininni kemur einnig fram að Juventus muni breyta um kúrs og byggja liðið upp á yngri leikmönnum á næsta tímabili og liggi bæði knattspyrnulegar og fjárhagslegar ástæður þar að baki.

Ekki er langt síðan Sara Björk kom fram í heimilidamynd Juventus þar sem sagt var frá baráttu hennar fyrir réttindum knattspyrnukvenna til að eignast barn. Þar sagðist Sara Björk hafa fengið frábæran stuðning frá félaginu og að Juventus væri sömuleiðis stolt af því að geta vakið athygli á réttindabaráttu Söru Bjarkar.

Uppfært: Sara Björk vildi ekki tjá sig um málið þegar Vísir hafði samband að öðru leyti en að segja að þessi orðrómur væri ekki sannur


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×