Enski boltinn

Evrópusæti í höfn í fyrsta skipti í sögunni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Leikmenn Brighton fagna með Pascal Gross eftir að hann skoraði þriðja mark liðsins í sigrinum í dag.
Leikmenn Brighton fagna með Pascal Gross eftir að hann skoraði þriðja mark liðsins í sigrinum í dag. Vísir/Getty

Brighton tryggði sér í dag sæti í Evrópukeppni á næsta tímabili í fyrsta sinn í sögunni. Liðið vann öruggan 3-1 heimasigur á föllnu liði Southampton.

Lið Brighton hefur heillað marga í vetur og þjálfarinn Roberto De Zerbi, sem tók við af Graham Potter í upphafi tímabils, gert frábæra hluti með liðið. Fyrir leikinn í dag var ljóst að liðið myndi tryggja sér sæti í Evrópukeppni á næsta tímabili með sigri en þeim áfanga hefur félagið aldrei áður náð.

Það var ljóst strax frá upphafi í hvað stefndi. Lið Southampton er nú þegar fallið í Championship-deildina og hefur því að litlu að keppa. Hinn ungi Evan Ferguson kom heimamönnum yfir á 29. mínútu eftir sendingu Alexis Mac Allister og Ferguson bætti sínu öðru marki við skömmu fyrir hálfleik.

Staðan í hálfleik 2-0 og Evrópusætið í augnsýn. Mohamed Elyounoussi minnkaði reyndar muninn fyrir gestina snemma í síðari hálfleik en það var eina skotið hjá Southampton á mark Brighton í dag.

Pascal Gross innsiglaði síðan sigur Brighton með þriðja marki liðsins á 69. mínútu og eftir það var engin spenna í leiknum. Lokatölur 3-1 og fögnuður leikmanna og starfsliðs Brighton var mikill eftir leik.

Enn á eftir að koma í ljós hvort Brighton spilar í Evrópu- eða Sambandsdeildinni á næsta tímabili. Liðið þarf eitt stig úr þeim tveimur leikjum sem það á eftir til að ná sæti í Evrópudeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×