Erlent

For­svars­menn OpenAI kalla eftir Al­­þjóða­­gervi­­greindar­­stofnun

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Margir sjá fyrir sér að ofurgreind gæti tortímt mannkyninu en ógnirnar eru í raun mun fleiri og lúmskari.
Margir sjá fyrir sér að ofurgreind gæti tortímt mannkyninu en ógnirnar eru í raun mun fleiri og lúmskari.

Stofnendur og stjórnendur OpenAI, sem eru að þróa gervigreindarforritið ChatGPT, kalla eftir því að komið verði á laggirnar stofnun á borð við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina til að vernda mannkynið frá því að þróa „ofurgáfaða“ gervigreind sem gæti tortímt mannkyninu.

Í ávarpi á vefsíðu fyrirtækisins kalla stofnendurnir Greg Brockman og Ilya Sutskever og framkvæmdastjórinn Sam Altman eftir því að alþjóðasamfélagið hefji vinnu við að rannsaka hvernig draga megi úr „tilvistarlegri áhættu“ gervigreindar með eftirliti, öryggisstöðlum og takmörkunum.

Stjórnendur OpenAI segja mögulegt að á næstu tíu árum muni gervigreind taka fram úr sérfræðikunnáttu mannsins á flestum sviðum. Þetta muni hafa kosti og galla í för með sér en ofurgreind muni verða öflugasta tæknin sem maðurinn hefur nokkurn tímann þurft að fást við.

Þeir segja gervigreindina munu opna á fordæmalausa hagsæld en tilvistarleg ógn geri það að verkum að grípa þurfi til forvarna. Til skemmri tíma ættu fyrirtæki sem eru leiðandi í þróun gervigreindar að taka sig saman um samfélagslega aðlögun með öryggi að leiðarljósi.

Center for AI Safety (CAIS) hefur tekið saman lista yfir mögulegar sviðsmyndir þar sem gervigreindin hefur fengið að þróast án eftirlits. Sérfræðingar stofnunarinnar sjá meðal annars fyrir sér að mannkynið gæti orðið algjörlega háð vélum og/eða að varanleg stéttskipting gæti orðið milli þess fámenna hóps sem á og stjórnar gervigreindinni og allra annara.

Stjórnendur OpenAI segja því mikilvægt að fólk alls staðar í heiminum taki lýðræðislega ákvörðun um takmörk og umfang gervigreindarforrita. Þeir séu hins vegar ekki með svörin við því hvernig eigi að útfæra eftirlitið.

Það sé ekki raunhæft að ætla að stöðva þróun gervigreindar, bæði vegna þess hversu jákvæðar breytingar hún muni hafa í för með sér en einnig vegna þess að maðurinn sé nú þegar komin á þá braut að gervigreindin sé það sem koma skal.

Umfjöllun Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×