Körfubolti

Ung­lingarnir þurfi að út­vega fimm­tíu milljónir

Sindri Sverrisson skrifar
KKÍ heldur úti tíu landsliðum og þarf fjöldi leikmanna að óbreyttu að greiða yfir 600.000 krónur í ferðakostnað í sumar.
KKÍ heldur úti tíu landsliðum og þarf fjöldi leikmanna að óbreyttu að greiða yfir 600.000 krónur í ferðakostnað í sumar. KKÍ

Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri körfuknattleikssambands Íslands, kallar eftir því að stjórnvöld eða fyrirtæki sjái til þess að unglingar og fjölskyldur þeirra þurfi ekki að greiða háar fjárhæðir til að spila fyrir íslensk landslið.

KKÍ stendur fyrir söfnunarátaki til að minnka kostnað leikmanna unglingalandsliðanna í sumar. Í færslu sambandsins segir að þeir leikmenn sem þurfi að greiða mest þurfi að útvega 650.000 krónur, til að geta verið með á vikulöngu Norðurlandamóti og hátt í tveggja vikna löngu Evrópumóti.

„Afreksstarf og þá sérstaklega yngri landssliða á undir högg að sækja. Óskandi væri að stuðningur ríkisvaldins við ungt afreksíþróttafólk á Íslandi væri viðunandi en það er langur vegur í að svo sé,“ segir í færslu KKÍ þar sem fólk og fyrirtæki eru hvött til að styrkja unglingana til þátttöku.

Hannes deilir færslunni á Facebook og segir þar að 250 milljóna króna aukaframlag frá ríkinu myndi duga fyrir keppnisferðum yngri landsliða í öllum íþróttagreinum á árinu.

Hann segir kostnaðinn við yngri landslið KKÍ á þessu ári nema um 80 milljónum króna og að eins og staðan sé núna þurfi leikmenn og fjölskyldur þeirra að greiða 50 milljónir króna.

KKÍ var í lok síðasta árs fært niður um flokk hjá Afrekssjóði ÍSÍ, með tilheyrandi tekjutapi fyrir sambandið. Á vef KKÍ segir að mikil vinna sé í gangi varðandi Afrekssjóð á vegum ríkisvaldsins, ÍSÍ og sérsambandanna en að því miður muni engin breyting verða á þessu ári.


Tengdar fréttir

ÍSÍ neyði landsliðið úr undankeppni EM

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta hefur aldrei verið eins nálægt sæti á heimsmeistaramóti og er það landslið Íslands sem er næst því að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum í París 2024. Útlit er hins vegar fyrir að liðið verði ekki með í undankeppni næsta Evrópumóts nema ÍSÍ taki í taumana, samkvæmt formanni Körfuknattleikssambands Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×