Erlent

Óðagot þegar alelda hús hrundi

Samúel Karl Ólason skrifar
Veggir byggingarinnar hrundu vegna eldsins.
Veggir byggingarinnar hrundu vegna eldsins. EPA/DEAN LEWINS

Þúsundir íbúa Sydney horfðu á sjö hæða sögufræga byggingu í viðskiptahverfi borgarinnar verða eldhafi að bráð í dag. Eldurinn kviknaði um fjögur leytið að degi til (að staðartíma) og varð fljótt alelda.

Slökkviliðsmenn reyndu að hamla útbreiðslu eldsins en byggingin hrundi vegna eldhafsins.

Í frétt ríkisútvarps Ástralíu segir að mikið óðagot hafi gripið um sig meðal vegfarenda þegar fyrsti veggur byggingarinnar hrundi og að múrsteinar hafi fallið á götuna.

Fleiri en 120 slökkviliðsmenn á þrjátíu slökkviliðsbílum börðust gegn eldinum og voru lögregluþjónar og sjúkraflutningamenn einnig að störfum á svæðinu. Búið er að ná tökum á eldinum. Engan sakaði í eldinum eða vegna hans.

Byggingin var reist árið 1912 og þar var langi þekkt hattaverksmiðja. Samkvæmt frétt ABC stóð til að breyta byggingunni í hótel. Eldsupptök liggja ekki fyrir en eldurinn er talinn hafa kviknað á þriðju hæð hússins.

Forsvarsmenn lögreglunnar segjast hafa áhyggjur af því hvaða áhrif hitinn hafi haft á nærliggjandi byggingar og voru þær rýmdar í bili. Eldurinn náði að teygja tungur sínar í önnur hús en slökkviliðsmenn náðu að slökkva þá elda sem kviknuðu.

Gífurlegur eldur logaði í byggingunni.EPA/DEAN LEWINS



Fleiri fréttir

Sjá meira


×