Í fréttum Stöðvar 2 voru sýndar myndir frá flugsýningunni, sem Flugmálafélag Íslands stóð fyrir, þar sem áhersla var lögð á að sýna breidd og drifkraft íslensks flugsamfélag.
„Þetta er bara rjóminn af því sem er í gangi í fluginu í dag, bæði stærstu og minnstu vélar, og drónar, og sýna breiddina og fjölbreytnina í íslensku flugsamfélagi,“ segir Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands.
Ætla má að nokkur þúsund manns hafi lagt leið sína niður á flugvöll en sjá mátti á áttunda tug flugvéla og flygilda og í lofti voru sýnd þriðja tug flugatriða. Og heyra mátti áhorfendur taka andköf þegar listflugmenn léku listir sínar, meira að segja á þyrlu.
„Það er mjög mikill áhugi alltaf á flugsýningu. Þetta er einn af stærstu menningarviðburðum borgarinnar, eins og við sjáum það,“ segir Matthías.

Stórar þotur vekja jafnan athygli en tvær Boeing 757 þotur Icelandair rennu sér yfir sýningarsvæðið. Smæstu flygildin vöktu ekki síður athygli eins og ótrúlegt færni drónaflugmanna.
Þá var fyrsta og eina rafmagnsflugvél Íslands sýnd almenningi í fyrsta sinn á flugsýningu og Einari Þorsteinssyni, formanni borgarráðs, boðið í flugtúr.
-Eruð þið að reyna að snúa honum?
„Á dögum sem þessum þá eru allir í góðu skapi. Við buðum honum hingað til þess að segja okkur hver hans hugur væri gagnvart flugi.
Hann var með mjög góða setningarræðu, setti hátíðina hérna, og sagði bara það sem okkur finnst líka; að flugið er mikilvægt og það ber að hlúa að því,“ svarar forseti Flugmálafélagsins.

Áhugi sýningargesta var sennilega mestur á að skoða nýjustu farþegaflugvél landsmanna. Langar biðraðir mynduðust til að skoða hina nýju Airbus-þotu Play en hún átti lokaatriði sýningarinnar. Eftir tignarlegt flugtak og sýningarhring yfir borginni renndi hún sér í hröðu lágflugi yfir aðalflugbrautinni.
„Við erum mikil flugþjóð og höfum verið í fleiri áratugi. Það er svo skemmtilegt að sjá einmitt hvað það eru margir sem sýna fluginu áhuga og eru að sinna því. Það eru margir sem hafa atvinnu af fluginu og þeir koma hingað líka til að samgleðjast með okkur,“ segir Matthías.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir sem Hafsteinn Snær Þorsteinsson ljósmyndari tók á flugsýningunni:













