„Við ætluðum að setja rós á leiðið hans pabba og taka páskablómin í burtu,“ segir Kolbrún. Hún segir frá því að hafa heyrt í háværum tjaldi á leið sinni inn í garðinn. Þegar inn var komið hafi fjögur tjaldsegg legið við leiði Guðmundar, föður hennar.
Kolbrún segir föður sinn alltaf hafa verið mikill dýravinur og eggin í hreiðrinu því táknræn. „Tjaldurinn hefur greinilega fundið einhvern góðan anda þarna,“ segir hún. Að auki hafi Guðmundur átt fjóra afkomendur og eggin einmitt verið fjögur.

Þrátt fyrir að hafa alist upp á Hjalla segir Kolbrún ekki hafa séð svona áður í kirkjugarðinum. „Við drifum okkur í burtu svo við myndum ekki fæla þau.“