Enski boltinn

Leik­maður Brig­hton skoraði mark ársins á Eng­landi

Smári Jökull Jónsson skrifar
Enciso sést hér fagna markinu frábæra.
Enciso sést hér fagna markinu frábæra. Vísir/Getty

Julio Enciso og Kepa Arrizabalaga voru í dag verðlaunaðir fyrir mark og markvörslu ársins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Lið Brighton sló heldur betur í gegn í ensku úrvalsdeildinni á nýliðnu tímabili. Roberto De Zerbi tók við stjórn liðsins í haust þegar Graham Potter færði sig yfir til Chelsea og hann tók liðið alla leið í Evrópudeildina á næsta tímabili.

Í dag bættist síðan enn ein rósin í hnappagat félagsins. Markið sem Julio Enciso skoraði gegn Manchester City var valið mark ársins en hann skoraði það í 1-1 jafntefli Brighton og Englandsmeistaranna.

Enciso var keyptur til Brighton frá Libertad í Paragvæ fyrir tímabilið og skoraði fjögur mörk á tímabilinu.

Þá var markvarsla Kepa Arrizabalaga, markmanns Chelsea, gegn Aston Villa valin markvarsla tímabilsins. Chelsea olli gríðarlegum vonbrigðum á tímabilinu en Mauricio Pochettino var á dögunum ráðinn sem nýr knattspyrnustjóri hjá félaginu.

Að endingu var Reiss Nelson leikmaður Arsenal verðlaunaður fyrir frammistöðu sína gegn AFC Bournemouth. Hann kom þá af bekknum, lagði upp jöfnunarmarkið og skoraði sigurmark í 3-2 sigri Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×