Fótbolti

Sara orðið bikarmeistari í fjórum löndum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir ásamt liðsfélögum sínum, Juliu Grosso og Amöndu Nilden.
Sara Björk Gunnarsdóttir ásamt liðsfélögum sínum, Juliu Grosso og Amöndu Nilden. getty/Ivan Romano

Sara Björk Gunnarsdóttir hefur orðið bikarmeistari í öllum löndum sem hún hefur spilað í nema á Íslandi.

Landsliðsfyrirliðinn fyrrverandi varð ítalskur bikarmeistari með Juventus um helgina. Liðið vann þá Roma í úrslitaleik í Salerno, 1-0. Sara lék allan leikinn.

Þetta var sextándi stóri titilinn sem Sara vinnur á mögnuðum ferli. Hún hefur átt sérstaklega góðu gengi að fagna í bikarkeppnum í þeim löndum sem hún hefur spilað í síðan hún hélt út í atvinnumennsku 2011.

Sara hefur nefnilega orðið bikarmeistari í öllum löndunum sem hún hefur leikið í, nema Íslandi.

Hafnfirðingurinn varð sænskur bikarmeistari með Rosengård 2016 og svo þýskur bikarmeistari með Wolfsburg fjögur ár í röð (2017-20). Hún fagnaði franska bikarmeistaratitlinum með Lyon 2020 og svo þeim ítalska með Juventus um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×