„Ég er náttúrulega bara ósáttur með það hvernig er komið fram við mig eftir góða frammistöðu, til dæmis á móti AGF þar sem ég er góður á miðjunni og legg upp sigurmarkið,“ segir Ísak Bergmann í viðtali við Stöð 2 á Laugardalsvelli fyrir æfingu íslenska landsliðsins fyrr í dag.
„Eftir þann leik er mér bara fleygt aftur á bekkinn. Það hefur svolítið verið staðan hjá mér. Ég fæ aldrei nokkra leiki í röð í liðinu þó svo að ég standi mig mjög vel inn á vellinum.“
Hann muni því þurfa að skoða sína stöðu með umboðsmanni sínum en Ísak Bergmann hefur verið á mála hjá FC Kaupmannahöfn síðan í ágúst árið 2021.
„Ég þarf að spila, þetta sýnir mér bara það að sama hvað ég geri þá er mér alltaf fleygt aftur á bekkinn. Þetta er bara eitthvað sem ég þarf að skoða með umboðsmanni mínum.“
Ítarlegra viðtal við Ísak Bergmann verður að finna í Sportpakkanum í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.