Leikurinn var afar rólegur fyrsta klukkutímann eða allt þar til Andrea Mist Pálsdóttir kom Stjörnukonum yfir með marki beint úr hornspyrnu.
Blikar sóttu í sig veðrið eftir þetta og á 68. mínútu fengu þeir upplagt færi til að skora. Vítaspyrna var þá dæmd á Sædísi Rún Heiðarsdóttur fyrir að brjóta á Hafrúnu Rakel Halldórsdóttur. Agla María Albertsdóttir tók spyrnuna en skaut í stöng.
Tveimur mínútum síðar tók Bergþóra Sól Ásmundsdóttir aukaspyrnu á hægri kantinum. Boltinn fór af höfði Málfríðar Ernu Sigurðardóttur og í netið.
Hafrún fagnaði fyrst fyrir framan Málfríði og benti svo á og nánast híaði á hana eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan.
Fleiri urðu mörkin ekki í leiknum og 1-1 jafntefli niðurstaðan í hörkuleik. Breiðablik er í 2. sæti deildarinnar með þrettán stig og Stjarnan í því fjórða með ellefu stig.