Andrea sagði í samtali við Vísi fyrir skömmu að draumurinn væri að ná í hóp tuttugu fremstu keppenda á mótinu, og útlitið var gott til að byrja með.
Keppendur hlupu 45 kílómetra og var samanlögð hækkun í hlaupinu 3.100 metrar. Eftir níu kílómetra var Andrea í 3. sæti og hún var í 16. sæti þegar farnir höfðu verið 16,5 kílómetrar. Fram að næsta tímatökusvæði dróst Andrea hins vegar niður í 43. sæti, þegar hlaupið var tæplega hálfnað, og hún endaði eins og fyrr segir í 35. sæti á 5:42:14 klukkustundum.
Andrea og Arnar Pétursson voru líklegust til afreka af íslensku keppendunum í dag en Arnar hætti keppni eftir 20,5 kílómetra, og var þá í 72. sæti.
Á Facebook-síðu mótsins segir að veðuraðstæður hafi verið afar erfiðar á kafla í seinni hluta hlaupsins, og að um 50 manns hafi þurft að hætta keppni af þeim sökum.
Þorsteinn fremstur af körlunum
Þorsteinn Roy Jóhannsson endaði fremstur íslensku karlanna eða í 73. sæti á 5:18:26 klukkustundum. Jörundur Frímann Jónasson kom svo í mark í 91. sæti á 5:30:41 klukkustundum og Halldór Hermann Jónsson var nálægt honum og endaði í 94. sæti.
Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir varð í 63. sæti í keppni kvenna á 6:12:19 klukkustundum. Anna Berglind Pálmadóttir varð í 67. sæti og Íris Anna Skúladóttir í 71. sæti.
Sigurvegari varð hin franska Clementine Geoffray sem hljóp á 4:53:12 klukkutímum en Norðmaðurinn Stian Hovind Agermund vann keppni karla á 4:19:00 klukkutímum.
Á morgun fer fram lengra hlaup, 87 kílómetrar, með samanlagt 6.500 metra hækkun. Þar keppa fjórir Íslendingar, þau Snorri Björnsson, Þorbergur Ingi Jónsson, Halldóra Huld Ingvarsdóttir og Rannveig Oddsdóttir.