Erlent

Minnst tíu brúð­kaups­gestir létust í rútu­slysi

Árni Sæberg skrifar
Fólk hefur lagt blómvendi við slysstaðinn í Hunter Valley í Nýja Suður-Wales.
Fólk hefur lagt blómvendi við slysstaðinn í Hunter Valley í Nýja Suður-Wales. Mark Baker/AP

Minnst tíu létust þegar rúta, sem flutti hóp brúðkaupsgesta frá vínbúgarði, valt í Nýja Suður-Wales í Ástralíu í kvöld.

Í frétt brseka ríkisútvarpsins um slysið segir að auk þeirra tíu sem létust séu 25 á sjúkrahúsi. Þá er haft eftir Tracy Chapman, aðstoðarlögreglustjóra í Nýja Suður-Wales, að fleiri gætu verið látnir, enda sé rútan enn á hliðinni og fólk gæti verið fast undir henni.

Ökumaður rútunnar hefur verið handtekinn í samræmi við áströlsk lög. „Hann hefur verið handtekinn. Hann var ökumaður í banaslysi og hann verður ákærður,“ er haft eftir Chapman.

Gleðidagur breyttist í martröð

Þá segir Chapman að fólkið hafi verið á leið úr brúðkaupi, sem haldið var á einum af fjölmörgum vínbúgörðum svæðisins. Anthony Albanese, forsætisráðherra Ástralíu hefur sent ástvinum hinna látnu samúðarkveðjur.

„Að gleðidagur endi í slíkum hræðilegum missi er sannarlega grimmilegt. Hugur okkar er einnig með þeim slösuðu,“ segir hann í yfirlýsingu.

Þá er haft eftir brúðkaupsgesti að dagurinn hafi verið ævintýri líkastur þar til að fregnir af slysinu bárust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×