Erlent

Malasíska ríkið uggandi vegna flug­slysa­gríns

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Bandaríkjamaðurinn Jocelyn Chia ólst upp í Singapúr.
Bandaríkjamaðurinn Jocelyn Chia ólst upp í Singapúr. Getty/Michael S. Schwartz

Stjórnvöld í Malasíu hafa óskað eftir liðsinni alþjóðalögreglunnar Interpol við að lýsa eftir bandarískum uppistandara sem gantaðist að flugslysum Malaysian Airlines í uppistandi sínu sem hún birti á veraldarvefnum í síðustu viku.

Verið er að rannsaka bandaríska uppistandarann Jocelyn Chia vegna hvatningar til lögbrots og móðgandi myndefni í tengslum við myndbrot úr uppistandi hennar sem hún birti á samfélagsmiðlinum TikTok.

Í myndskeiðinu gantast hún að Malaysian Airlines flugfélaginu í samhengi við vinalegan ríg Singapúr og Malasíu, en Chia er uppalin í Singapúr. Hún segir Singapúr orðið að fyrsta heims ríki meðan Malasía teljist enn vera þróunarríki og að flugvélar Malaysia geti ekki flogið.

„Eru hvörf Malaysian Airlines flugvéla sem sagt ekki fyndin? Sumt grín flýgur ekki,“ er meðal þess sem hún sagði.

Flugvél Malaysian Airlines, í flugi MH370 árið 2014, hvarf skömmu eftir brottför og hefur enn ekki fundist þrátt fyrir fjögurra ára leit.

Fram kemur í frétt BBC að myndskeiðið hafi ollið uppnámi og mótmælum í Malasíu og var fjarlægt af TikTok. Vivian Balakrishnan, utanríkisráðherra Singapúr, bað Malasíska ríkið afsökunar fyrir „hræðilegar staðhæfingar“ uppistandarans.

Chia sagðist standa með því gríni sem hún gerði að Malasíu í samtali við CNN.

Fréttin hefur verið uppfærð




Fleiri fréttir

Sjá meira


×