Íslenski boltinn

Morten Beck Guldsmed dæmdur fullnaðarsigur gegn FH

Siggeir Ævarsson skrifar
Morten Beck Guldsmed vann í dag fullnaðarsigur í launadeildum sínum við FH.
Morten Beck Guldsmed vann í dag fullnaðarsigur í launadeildum sínum við FH. vísir/hag

Áfrýjunardómstóll KSÍ staðfesti í dag úrskurð aga- og úrskurðarnefndar KSÍ í í máli nr. 3/2023 knattspyrnudeild FH gegn Morten Beck Guldsmed. FH er sektað um 150.000 krónur og sæta félagaskiptabanni í eitt tímabil ef ekki verði gengið frá uppgjöri við Morten Beck innan við 30 daga frá því að dómurinn er kveðinn upp.

Snérust deilurnar um vangoldin laun á tímabilinu 2019-2021. FH héldu fram að um verktakasamning hefði verið að ræða en Morten Beck hélt því fram að um launþegasamning hefði verið að ræða, og hafði samninga- og félagaskiptanefnd KSÍ þegar úrskurðað leikmanninum í vil. Þar með beri knattspyrnudeild FH ábyrgð á greiðslu skatta og annarra launatengdra gjalda.

Krafa Morten Beck nemur alls rúmlega 24,3 milljónum króna og skiptist í launakröfu upp á 17,5 milljónir og dráttarvexti, auk lögmannskostnaðar upp á tæpa milljón.

Árangurslaus samningafundur í janúar

Vilhjálmur Vilhjálmsson, lögmaður Mortens, hafði áður greint Vísi frá að hann hafi fundað með fulltrúum FH og lögmanni félagsins í janúar þar sem samninga- og félagaskiptanefnd tók ekki afstöðu til þess hvaða upphæð leikmaðurinn ætti inni.

Reyndist sá fundur hins vegar árangurslaus og því ákvað Morten að láta reyna á rétt sinn hjá aga- og úrskurðarnefnd KSÍ.

Morten Beck lék eins og áður sagði með FH á árunum 2019-2021. Hann skoraði átta mörk í jafn mörgum leikjum sumarið 2019 en bætti aðeins tveimur deildarmörkum við næstu tvö sumur og skoraði hann ekkert mark í níu deildarleikjum með liði ÍA þar sem hann var að láni í tvo mánuði sumarið 2021. Morten Beck hafði áður spilað á Íslandi sumarið 2016, þar sem hann skoraði sex mörk í 21 leik.

Hægt er að lesa dóminn í heild sinni hér.


Tengdar fréttir

Krefst 24 milljóna og FH mögulega bannað að fá leikmenn

Knattspyrnudeild FH er í grafalvarlegri stöðu vegna kröfu fyrrverandi leikmanns félagsins, hins danska Mortens Beck Guldsmed, vegna vangreiddra launa á árunum 2019-2021. Félagið gæti verið á leið í félagaskiptabann vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×