Rússar hafa verið beittir umfangsmiklum refsiaðgerðum og viðskiptaþvingunum í kjölfar innrásarinnar. Fjölmörg fyrirtæki hafa slitið tengsl sín við ríkið og hætt þar viðskiptum. Í frétt New York Times segir að ráðstefnan í Pétursborg, sem haldin er á hverju ári, sé ekki skugginn af sjálfri sér þetta árið.
Pútín hélt erindi á ráðstefnunni í dag þar sem hann sagði að samband Rússlands og þeirra ríkja sem hefðu ekki snúið bakinu við ríkinu, hefði styrkst. Forsetinn hefur ítrekað reynt að mála þá mynd af Rússlandi að ríkið geti staðið af sér refsiaðgerðirnar með því að snúa sér frekar til Asíu og ítrekaði hann það í erindi sínu.
Þá sagði hann refsiaðgerðirnar hafa styrkt Rússland til lengri tíma, þar sem grunnur hagkerfisins hefði þurft miklar endurbætur.
Pútín viðurkenndi þó að fjárútlát til varnarmála hefðu aukist mjög og sagði það eðlilegt miðað við ástandið og nauðsynlegt til að verja fullveldi Rússlands, sagði forsetinn sem skipaði rússneska hernum að gera innrás í Úkraínu í fyrra.
Segir peninga ekki vaxa á trjám
Moscow Times hefur eftir fjármálaráðherra Rússlands að mögulega þurfi að hækka skatta þar í landi til að fylla upp í holur sem myndast hafi á fjárlögum en Rússar hafa orðið af verulegum tekjum vegna sölu kolefnaeldsneytis. Anton Siluanov sagði að tekjurnar hefðu dregist saman um helming.
Siluanov sagði að í ljósi verulega aukinna fjárútláta þurfi fólk að skilja að peningar vaxi ekki á trjám. Þá sagði hann þrjá kosti í stöðunni. Sá fyrsti væri fjárlagahalli með hækkandi verðbólgu og vöxtum. Annar væri skattahækkanir og sá þriðji væri niðurskurður.
Sagðist eiga fullt af vinum sem eru gyðingar
Eftir erindi hans var Pútín spurður nokkurra spurninga á sviði og snerust þær fyrstu um innrásina í Úkraínu. Þar staðhæfði Pútín enn og aftur að nauðsynlegt væri að af-nasistavæða Úkraínu, sem er ekki rétt.
Aðspurður um af hverju hann kallaði Vólódímír Selenskí, forset Úkraínu sem er gyðingatrúar, nasista, sagði Pútín að hann ætti fullt af vinum sem eru gyðingar. Þeir segðu honum að Selenskí væri ekki gyðingur, heldur væri hann skömm fyrir gyðinga. Við það hófst mikið lófaklapp á fjárfestaráðstefnunni.
Því næst hélt Pútín stutt ávarp, sem virðist hafa verið fyrir fram skipulagt, úkraínska þjóðernissinna sem myrtu gyðinga á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar.
Putin then pivots, completely without warning, to a mini-documentary about anti-semitic pogroms involving Ukrainian nationalist groups during World War II, narrated by the head of Russia's propaganda agency.
— max seddon (@maxseddon) June 16, 2023
This is, to remind you, his big speech to attract foreign investment pic.twitter.com/cdbWQepkn8