Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég vakna yfirleitt snemma á morgnana, um klukkan sex. Ég grínast stundum með það að það mætti halda að ég væri að fara til útlanda á hverjum morgni því ég vakna svo snemma. Það er svo gefandi að vakna og hlusta á fuglasönginn og njóta fallegu birtunnar.
Það er ekki alveg eins auðvelt að vakna svona snemma á veturna í myrkri og frosti en eins undarlegt og það kann að hljóma þá kemst það upp í vana og hefur ákveðinn sjarma.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Mér finnst æðislegt að hreyfa mig snemma á morgnana og fer oftast út að skokka við Vífilsstaðavatn eða í jóga. Það gefur mér mikla orku og ég fer í framhaldinu hress inn í daginn.“
Þegar þú varst lítil hvað hélstu eða dreymdir um að þú yrðir þegar þú værir orðin stór?
Þegar ég var lítil dreymdi mig um að verða flugstjóri. Mér fannst það spennandi.
Ég man að ég var ekki ánægð með að það var frekar gert ráð fyrir að stelpur yrðu flugfreyjur og strákar flugstjórar. Strax sem stelpa hugsaði ég um að konur gætu verið í efstu stöðum í öllu atvinnulífinu.
Að alast upp með frú Vigdísi Finnbogadóttur sem forseta og eiga æðislega foreldra hafði mikil og jákvæð áhrif á mig.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst þessa dagana?
„Ég er nýbyrjuð að vinna hjá Controlant og er á fullu að kynnast þessu flotta fyrirtæki og öllu frábæra fólkinu sem þar vinnur. Það er virkilega lærdómsríkt.
Ég er einnig stjórnarformaður Exedra sem er vettvangur umræðna fyrir öflugan hóp kvenna og stjórnarformaður Von harðfiskverkunar sem er ein stærsta harðfiskframleiðsla landsins. Þannig að verkefnin mín eru fjölbreytt, krefjandi og skemmtileg.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Ég forgangsraða verkefnum og bý til aðgerðarlista. Hjá Controlant hef ég verið að læra á mikið að nýjum kerfum sem hjálpa mér meðal annars að hafa yfirsýn yfir verkefnin og forgangsraða þeim.
Ég er orðin meðvitaðri um að láta símann og samfélagsmiðla ekki taka af mér öll völd og hef verið að minnka notkun þeirra.
Til að ná að afkasta sem mestu skiptir máli að vera full af orku og ég finn hvað góð næring, hreyfing og góður svefn skipta gríðarlega miklu máli.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég er mjög kvöldsvæf og er eiginlega óviðræðuhæf eftir klukkan tú á kvöldin. Ég vel að fara snemma sofa til að geta vaknað fersk á morgnana.
Hins vegar finnst mér sólsetrið og birtan á kvöldin á þessum árstíma mjög heillandi og skal alveg viðurkenna að ég á erfiðara með að fara snemma að sofa á sumrin en á veturna.“