Fimm uppreisnarmenn sem eru sagðir úr röðum ADF-uppreisnarhópsins í Austur-Kóngó réðust á Lhubiriha-miðskólans í Mpondwe í vestanverðu Úganda að nálgast miðnætti á föstudagskvöld. Breska ríkisútvarpið BBC segir að þeir hafi farið inn í svefnskála, kveikt eld og ráðist á nemendur með sveðjum.
Lík sumra fórnarlambanna voru svo illa leikin að rannsaka þarf lífsýni úr þeim til þess að bera kennsl á þau.
AP-fréttastofan segir að 41 hafi fallið í árásinni að minnsta kosti, þar á meðal 38 nemendur. Öryggisvörður og tveir bæjarbúar hafi einnig verið drepnir. Úgandski herinn segir að uppreisnarmennirnir hafi rænt sex börnum til að bera mat sem þeir stálu úr skólanum.
Antonio Guterres, framvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, fordæmdi árásina og krafðist þess að þeir sem bæru ábyrgð á henni yrðu handsamaðir. Úgandíski herinn segist veita árásarmönnunum eftirför í átt að Virunga-þjóðgarðinu í Austur-Kongó. Þyrlur eru meðal annars notaðar við eftirförina.
ADF er hópur íslamskra öfgamanna sem hefur staðið fyrir árásum í Austur-Kongó undanfarin ár. Sjaldgæft er að þeir hætti sér yfir landamærin að Úganda. Úgandíski herinn hefur tekið þátt í að reyna að uppræta samtökin í Kongó.